146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Hugmyndin á bak við útgjaldaregluna, sem við erum að vinna með núna samkvæmt fjármálastefnunni, er að takmarka árlegan útgjaldavöxt og virka sem aðhald á rekstur ríkisins. Það er rétt sem þingmaðurinn kemur inn á, þarna erum við að hugsa um sveiflujöfnun og hugsa þetta til lengri tíma en við höfum almennt gert undanfarin ár. Þetta er hlutfallið af landsframleiðslu, 41,5%, þannig að með aukinni landsframleiðslu verða til meiri tækifæri til að setja meira í fjárfestingar og rekstur ríkisins. En okkur hefur raunverulega aldrei tekist að beisla rekstur ríkisins með þessum hætti og vera svolítið öguð. Auðvitað er það erfitt að því leyti þegar maður er búinn að tala fyrir verkefnum, samgöngumálum og ýmsum sviðum í gegnum árin, að þurfa síðan að setjast í fjárlaganefnd og fara að hugsa hlutina út frá rekstri og tekjum ríkisins. Við erum að reyna að taka okkur á með þessum reglum. Þetta er fjórða reglan í lögum um opinber fjármál, í fjármálastefnunni, sem kemur út með þessum hætti. Megintilgangur fjármálastefnunnar er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi í landinu til lengri tíma.

Ég ætla ekki að koma hér og lofa öllu fögru, enda gerði ég það ekki fyrir kosningar, svo það sé ljóst, ég lofaði ekki öllu fögru. Við verðum að hugsa þetta af skynsemi til lengri tíma. Okkur Íslendingum hefur frá lýðveldisstofnun aldrei tekist að lenda nokkurri hagsveiflu á Íslandi með skynsamlegum hætti. Þetta er tilraun til þess að reyna að ná því að að lenda einu sinni einni slíkri.