146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Fyrir rúmu ári hættu íslensk stjórnvöld að senda hælisleitendur til baka til Ítalíu vegna frétta af óviðunandi aðstæðum flóttamanna þar í landi. Þeirri ákvörðun var illu heilli snúið nú um áramótin síðustu. Ítalía er það sem kallast í útlendingalögum öruggt land. Það er vandmeðfarið hugtak. Þó að ríki séu örugg í þeim skilningi að þar ríki ekki skálmöld og þar virki bæði stjórnsýsla og réttarkerfi geta þau verið allt annað en örugg fyrir tiltekna einstaklinga og hópa.

Dæmin eru allt of mörg. Á það hefur meðal annars verið bent í máli Amírs Shokrgozars, hælisleitanda frá Íran, sem íslensk stjórnvöld sendu nýlega aftur til Ítalíu í krafti Dyflinnarreglugerðarinnar. Amír þurfti að flýja heimaland sitt vegna þess að hann er samkynhneigður. Fyrir það getur fólk verið drepið í Íran.

Fyrsta Evrópuríkið sem hann kom til á flóttanum var Ítalía. Ítalía reyndist fjarri því að vera öruggt ríki fyrir Amír. Hann varð fyrir kynferðisofbeldi í flóttamannabúðunum. Eftir það bjó hann á götunni mánuðum saman áður en hann kom sér hingað til Íslands fyrir tæpum tveimur árum og sótti um hæli.

Á þessum tíma hefur Amír fest hér rætur og eignast vini. Hann fann ástina og hefur lengi reynt að giftast unnusta sínum en ekki fengið vegna þess að íslensk stjórnvöld rukka hann um pappíra frá þeim írönsku.

Stöldrum aðeins við það. Já, stjórnsýslan okkar rukkar flóttamann um pappíra frá landinu sem hann er að flýja vegna samkynhneigðar, pappíra til að hann geti gengið í samkynhneigt hjónaband. Hvernig ætli Íranir taki þeirri beiðni?

Nú berast þær fréttir að Amír, maðurinn sem við sendum úr landi hafi fengið synjun á hælisumsókn sína á Ítalíu. Það stefnir því í að hann verði sendur aftur til Íran ef ekkert verður aðhafst.

Ábyrgðin er okkar. Og af því að ég sé (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra hér í hliðarsal: Dómsmálaráðherra verður að grípa í taumana. Mér finnst fullkomlega galið að maður sem á líf og fjölskyldu hér á landi geti endað á götunni á Ítalíu og jafnvel verða tekinn af lífi í Íran af því að „computer says no“.

(Forseti (UBK): Forseti verður að biðja hv. þingmenn um að virða þau tímamörk sem gefin eru í umræðunni.)