146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Oktavía Hrund Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég trúi því varla að við séum að fara að endurtaka leikinn enn einu sinni við sölu á bönkum. Við fáum skýrslu um söluna á Búnaðarbankanum í næstu viku og nú fáum við fréttir af sölu á 30% hlut í Arion banka. Aftur vitum við ekki hver kaupir. Aftur vitum við ekki hvaða afleiðingar þetta mun hafa.

Forseti. Af þessu er ólykt sem er kunnugleg. Með kaupum á 9,99% hlut komast fjárfestar hjá því að falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Það er augljóst að í þessu söluferli er riðlast á jaðri þess sem löglegt er, því að 9,99% er tala sem ekki er orðin til fyrir tilviljun. Þarna er viljandi verið að senda löggjafanum fingurinn því að augljóst má vera að lög sem fela það í sér að hluthafar sem eiga minna en 10% þurfi ekki að gera grein fyrir sér, voru sett í ákveðnum tilgangi.

Bankastjórinn kemur fram og segir stoltur frá því að erlendir fjárfestar velji og hafi trú á að fjárfesta á Íslandi. Ef ég man rétt þá svaraði Höskuldur Ólafsson, forstjóri Arion banka, á nákvæmlega sama hátt og Hreiðar Már Sigurðsson, bankastjóri Kaupþings, þegar Al Thani átti að hafa svo mikla trú á íslenskum bönkum að hann vildi kaupa 5% hlut í bankanum.

Fólk var dæmt í fangelsi út af þeim gjörningi. Nú er aftur verið að spila með Fjármálaeftirlitið. Það er verið að spila með löggjafann. Það er verið að spila með þjóðina. Getur verið að löggjafinn ætli að sitja aðgerðalaus hjá og horfa upp á þennan málamyndagjörning; gjörning sem er ógagnsær blekkingarleikur?