146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og kom fram í umræðunni er örugglega verið að búa til þetta ráðuneyti í þeim tilgangi að búa til nýjan ráðherrastól og kannski geta ráðherrarnir ekki unnið eins vel saman og aðrir ráðherrar í öðrum ráðuneytum, það getur vel verið. Samt sem áður er þetta góð niðurstaða í málinu sem er sú að þessi málefni sem eru mjög óeðlislík og eins og segir í lögunum þá, ef þau eru þannig, þá skiptum við þeim upp í ráðuneyti. Annars vegar er verið að tala um málefni réttarríkisins sem dómstólaráðherra fer með í þessu nýja dómsmálaráðuneyti og fær sérstakan ráðuneytisstjóra til þess að aðstoða sig við það, hins vegar eru það samgöngu- og byggðamál, sveitarstjórnarmál. Þá erum við með sérstakan ráðherra sem er með sérstakan ráðuneytisstjóra og getur einbeitt sér að þeim verkum.

Við teljum að þetta sé góð tillaga. Þetta þykir betri verkstjórn. Í meðferð nefndarinnar var tryggt að öll stoðþjónustan færist ekki beint en hún væri þvert á ráðuneyti. Það er einmitt verið að vinna að betra samráði milli ráðuneytanna og ráðherranna þannig að við teljum þetta vera góða þróun og styðjum málið.