146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[15:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er samþykkt stefna Pírata að sjóðfélagar sjálfir skuli kjósa í stjórnir lífeyrissjóðanna. Fyrir ári síðan vann ég verkefni með Ragnari Þór Ingólfssyni, nýkjörnum formanni VR, þar sem við tókum saman stjörnugjöf út frá góðum alþjóðlega viðurkenndum stjórnarháttum þegar kemur að lífeyrissjóðunum. Við settum upp löghlýðnivinkil, settum upp ábyrgðarvinkil. Og þá, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi áðan: Að lífeyrissjóðirnir beiti sér almennt og alfarið fyrir að nota bestu mögulegu góðu stjórnarhætti til að takmarka spillingu. Það er einn af þessum þáttum sem kemur fram í UN Global Compact sem er útfærsluatriði þegar kemur að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Þetta höfum við samþykkt á Íslandi, þetta eru Sameinuðu þjóðirnar í samstarfi við helstu spillingarverndarbatterí í heiminum búnar að útfæra. Að sjálfsögðu eiga lífeyrissjóðirnir að innleiða þetta. Það kostar þá mjög lítið að taka þátt í þessu verkefni. Ég er búinn að athuga það. Þeir geta gert það með því að stjórn lífeyrissjóðsins fyrirskipi framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins, gefi út yfirlýsingu um að þeir skulu gera það og þá eru þeir komnir af stað. Þetta geta þeir gert eftir næsta stjórnarfund, eftir að hafa kynnt sér málið, ef þeir hafa áhuga á því.

Varðandi lýðræðið. Almennt er staðan þessi: Það er lítið traust til lífeyrissjóðakerfis landsins. Öruggari lífeyrir, með Ragnari Þór Ingólfssyni og mér, við fengum gerða fyrir okkur skoðanakönnun frá Gallup fyrir ári síðan. Þar kom fram að það voru 52% landsmanna sem báru lítið eða ekkert traust til lífeyrissjóðakerfis Íslands. Það er mjög alvarleg staða. Jafnframt kom fram að það eru aðeins 17,8% sem bera mikið eða eitthvert traust til þeirra. Það er enn þá minna traust til Samtaka atvinnulífsins og ASÍ sem eru þeir sem skipa flest fólkið í þessar stjórnir. Fólk treystir ekki þeim sem fara með lífeyrispeninga þess. Hvað gerist þá? Þá gerist það bara að fólkið tekur völdin í sínar hendur. Það er byrjað. Ragnar Þór Ingólfsson var kjörinn formaður VR, stærsta verkalýðsfélags Íslands. (Forseti hringir.) Barátta hans er fyrir því að sjóðfélagar fái að kjósa sjálfir í stjórn lífeyrissjóðanna og hafa áhrif á það hvernig er farið með peningana þeirra. Nú er kominn tími til að hlusta og innleiða góða stjórnarhætti, lýðræðislega og þess háttar.