146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

lífeyrissjóðir.

[16:14]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Allar þær spurningar sem lagðar eru fram til umræðu hafa verið gagnlegar og dýpka umræðuna. Til að mynda að skoða kosti og galla þess að lögfesta frelsi launafólks til að velja sér lífeyrissjóði. Valfrelsi og samkeppni á milli lífeyrissjóða er tímabær umræða og hvernig sé hægt að auka samkeppni á milli þeirra. Það er rétt hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni að langflestir Íslendingar vilja aukið val þegar um er að ræða þátttöku þeirra í lífeyrissjóðum. Þess vegna þarf að huga betur að þessum málum og erum við að sjá ákveðinn fyrsta vísi að því hér á þingi.

Sérstaklega áhugavert er að skoða með hvaða hætti er hægt að auka áhrif sjóðfélaga á stefnu og fjárfestingar lífeyrissjóða. Einn þáttur í því eins og kemur fram í spurningu hv. þingmanns er að skoða rétt sjóðfélaga til að kjósa með beinum hætti í stjórn lífeyrissjóða.

Virðulegi forseti. Eignir lífeyrissjóðanna hafa vaxið mikið á síðustu misserum eða eru í kringum 3.500 milljarðar kr. Þeir hafa verið innan fjármagnshafta síðustu átta árin og sökum þess eru erlendar eignir þeirra um 20% af heildareignum. Að mínu mati þarf mun meiri áhættudreifingu á milli innlendra og erlendra eigna lífeyrissjóðanna og því er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir nýti þær heimildir og það frjálsræði sem nú er á fjármagnsjöfnuðinum til þess að búa í haginn fyrir framtíðina.

Annað í þessari umræðu sem mér finnst vert að benda á tengist endurskoðun á peningastefnunni. Í ljósi þess hversu stórir aðilar lífeyrissjóðirnir eru í íslensku hagkerfi þarf að huga að samspili þeirra er varðar fjármagnsflutninga. Eins og staðan er í dag þá streymir inn mikið af erlendum gjaldeyri í gegnum ferðaþjónustuna en útflæði hefur verið mjög takmarkað vegna fjármagnshaftanna. Vegna þeirra breyttu tíma sem uppi eru þá munu (Forseti hringir.) lífeyrissjóðirnir verða mjög mikilvægir í því (Forseti hringir.) að ná meira jafnvægi á inn- og útflæði gjaldeyris.

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg umræða hér í dag. Vænti ég þess að hún verði meiri (Forseti hringir.) í þingsölum á næstu misserum. Að auki vildi ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hans greinargóðu svör.