146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:41]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það frumvarp sem hæstv. ráðherra leggur hér fram. Það felur í sér uppgjöf eða fráhvarf frá því að ná sátt í málinu eins og boðað hafði verið.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna aðstöðumun sveitarfélaga til að standa undir þjónustuþörfum íbúa. Tekjur sveitarfélaga eru mjög mismunandi ekki síður en útgjaldaþörfin. Fyrir mörg sveitarfélög á landsbyggðinni er til að mynda mun kostnaðarsamara að standa undir lögbundinni þjónustu en fyrir þau stærstu, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Tekjustofnar gefa einnig mjög mismunandi af sér. Sveitarfélög sem hafa mestu tekjurnar eða fullnýta ekki tekjustofna eins og útsvar eða fasteignaskatt fá því skert framlag úr jöfnunarsjóði en mismun miðlað að nokkru til þeirra sveitarfélaga sem þurfa mest á því að halda.

Nú búa mörg sveitarfélög á landsbyggðinni við samdrátt í tekjum vegna sterkrar krónu og lækkandi afurðaverðs. Á sama tíma eykst útgjaldaþörfin. Veruleiki flestra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar allt annar. Þar eru skatttekjur að aukast mikið auk vaxandi tekna af stórfelldri lóðasölu. Það er ekki í anda jöfnuðar og réttlætis að úthluta hlutdeild sveitarfélaga í bankaskatti eftir útsvarstekjum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, ekki fremur en það væri ef fjármunum til þjónustu við fatlað fólk væri úthlutað með þeim hætti frekar en eftir þjónustuþörf. Mjög sérstakt er að fara að taka hluta tekna jöfnunarsjóðs út fyrir sviga og skipta tekjum sjóðsins með öðrum hætti en grundvöllur hans byggir á. Jöfnunarsjóður á að vera sjóður sem jafnar aðstöðumun sveitarfélaga í landinu hvað varðar tekjur og útgjaldaþörf.

Til að orðlengja það ekki frekar: Ég myndi aldrei trúa því upp á þingmenn landsbyggðarinnar að styðja slíka lagasetningu með atkvæði sínu eða eiga aðild að því að þrýsta því í gegnum nefndir Alþingis. Ákvæði frumvarpsins ganga einfaldlega svo gegn grundvallargildum byggðajafnréttis og þeim forsendum sem jöfnunarsjóður hefur starfað eftir um árabil með farsælum hætti og í góðri sátt.

Ef frumvarpið verður dregið til baka eða dagar uppi aftur og verður ekki samþykkt mun þessum fjármunum sem safnast hafa fyrir í sjóðnum frá árinu 2014 vegna sérstaks bankaskatts verða úthlutað til sveitarfélaganna í landinu eftir þörfum þeirra og settum leikreglum um jöfnun, ekki eftir því hve miklu þau ná inn í útsvarstekjur. Með samþykkt slíkra laga og afturvirkt væri hægt að skapa fordæmi sem ekki sæi fyrir endann á. Hvað kemur næst? Verður haldið áfram að ganga á svig við úthlutun fjármuna til sveitarfélaga eftir þörfum þeirra á forsendum jöfnunar?

Þá er rétt að benda á að slík afturvirkni felur í sér slæma stjórnsýsluhætti. Staðan er í raun sú að í jöfnunarsjóði hefur verið haldið rúmum milljarði frá sveitarfélögum í beinni andstöðu við ákvæði tekjustofnalaga. Sú stjórnsýsla er í andstöðu við lög að mati Jóns Jónssonar hæstarréttarlögmanns sem unnið hefur álitsgerðir fyrir hóp sveitarfélaga á landsbyggðinni sem telja á sér brotið. Hefur hann m.a. bent á, með leyfi forseta, dóm Hæstaréttar í máli nr. 631 frá 2014. Þar skoraðist ráðuneytið undan því að gefa út reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna hitaveitu í andstöðu við gildandi lög allt þangað til lögum var breytt. Sveitarfélagið átti hins vegar rétt til greiðslunnar á grundvelli skaðabótareglna. Íslenska ríkið væri í raun að taka verulega áhættu með því að þrýsta þessum lögum í gegn. Jón Jónsson telur enn fremur lagaleg rök fyrir því að ekki sé heimilt að fella niður lög ákveðinna tekjustofna sveitarfélaga afturvirkt í ljósi ákvæða stjórnarskrárinnar. Annars vegar að lögákveðin krafa hefur stofnast sem nýtur verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár. Lögin staðfesta að tekjum jöfnunarsjóðs skuli ráðstafað m.a. til tekjujöfnunarframlaga og lögbundið er að sveitarfélög þurfa að fullnýta tekjustofna til að eiga þann rétt. Hins vegar vegna ákvæða 78. gr. stjórnarskrár um að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum. Hann segist ekki geta séð að nokkrar millileiðir séu til þess að breyta löggjöfinni afturvirkt þannig að lagalegri stöðu sveitarfélaga á árunum 2014–2015 verði ekki raskað. Lagabreytingarnar virðast svo alltaf fela í sér úthlutun til sveitarfélaga sem ekki nýta hámarksútsvar sem felur í sér ákveðna eðlisbreytingu á hlutverki jöfnunarsjóðs.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ráðuneytið hafi látið gera úttekt á því hvort þetta standist. Hér er farið fram á að ráðuneytið leggi fram lögfræðiálit um andstæð sjónarmið ef það er til en láti vinna slíkt að öðrum kosti. Það væri fróðlegt að sjá slíkt fyrir alla sem að málinu koma og í raun hefði aldrei átt að leggja fram slíkt frumvarp eins og hér var kynnt án þess að það lægi fyrir og frumvarp stæðist slíka skoðun.

Ég er andvígur þessu frumvarpi í núverandi mynd og vil taka undir efni bréfs sem ráðuneytinu barst 13. febrúar sl. frá ellefu sveitarfélögum á landsbyggðinni þar sem óskað er eftir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga afgreiði þann tekjuauka sem sjóðurinn fékk vegna áhrifa laga nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir ríkissjóðs, samkvæmt gildandi reglum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það verði gert án frekari tafar.