146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:52]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var talað um ferli og ætlan og annað slíkt í upphafi vegferðar þessa máls. Það er svolítið sérstakt að halda því fram að lagt hafi verið upp með að láta þessa fjármuni renna inn í jöfnunarsjóð sem ætti síðan með lagasetningu eftir á að koma í einhvern annan farveg en sjóðurinn starfar eftir. Það hefði þá verið eðlilegra að búa til þá umgjörð strax í upphafi og hafa þá alveg klárt hvernig hlutirnir ættu að ganga fyrir sig skref fyrir skref en ekki ætla að fara eftir á í einhverjar reddingar og lagabreytingar þegar menn átta sig á að þeir hafi kannski ekki unnið heimavinnuna nægilega vel.

Hins vegar er þetta grundvallarmál. Þetta er líka prófmál varðandi jöfnunarsjóðinn og meðferð fjármuna sem hann fer með og eins varðandi hlutverk sjóðsins sem jöfnunartækis sem hefur verið mikil sátt um. Þarna eru menn að reyna að laga hlutina eftir á. Það er ekki góð stjórnsýsla. Það er slæm stjórnsýsla að ætla að fara að breyta sögunni mörg ár aftur í tímann.