146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[17:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það verður auðvitað að vera nefndarinnar sem fær málið til umfjöllunar að meta lagalega stöðu þess. Það er lagt fram af hálfu mín sem ráðherra í þeirri fullvissu að ekki sé farið á svig við lög. Málið hefur fengið mikla vinnu og yfirferð í ráðuneytinu. Það er í sjálfu sér sjálfstætt ágreiningsmál hvað stjórn jöfnunarsjóðs er heimilt að halda eftir af höfuðstól hverju sinni, ótengt þessu máli og hvaða áhrif ákvarðanir Alþingis geta haft á þessa tekjustofna sveitarfélaga og hvernig það skuli meðhöndlað.

Ég ítreka það sem fram hefur komið. Málið er unnið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Niðurstaðan er í samræmi við niðurstöðu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það má vel vera að verið hafi einhver ágreiningur innan stjórnarinnar. Mér er ekki kunnugt um hann sérstaklega, en málið er unnið á þeim samstarfsvettvangi. Síðan hafði ákveðin ráðgjafanefnd með þessi mál að gera. Hún klofnaði í þessu máli. Niðurstaðan var að leggja þetta hér fram.

Það væri að mínu mati heppilegast að reyna að vinna málið í einhverri sátt. Það má vel vera að það séu fletir á því. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni tel ég að það sé verkefni þingsins að reyna að vinna með það og sjá hvort hægt sé að leiða einhverja frekari sátt til niðurstöðu í þessu máli.