146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[17:10]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra aftur varðandi það sem ég spurði um áðan, hvort ráðuneytið hefði látið vinna lögfræðiálit um þetta efni áður en frumvarpið var lagt fram. Því hefur svo sem ekki verið svarað nema svo virtist sem þingnefnd hefði verið ætlað að vinna þá vinnu. Þá velti ég aftur fyrir mér góðum stjórnsýsluháttum, hvort frumvörp séu nægilega vel úr garði gerð í viðkomandi ráðuneytum áður en þau eru lögð hér fram og fara í efnislega vinnslu nefnda. Ég hefði talið eðlilegt að slíkt lögfræðiálit lægi fyrir nú þegar sem benti til þess að frumvarpið stæðist. Ég vil ítreka þá spurningu sem ég kom með áðan, hvort slík álitsgerð liggi fyrir og hvort hæstv. ráðherra telji ekki rétt að slíkt sé unnið ef ekki er búið að því, og að þingnefndum sé ekki einungis látið eftir að leita þeirra álita.