146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[17:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert nýtt hér á hv. Alþingi að ágreiningur sé um lagafrumvörp sem koma fram, hvort sem er á vettvangi þingsins, þingmannafrumvörp, eða hvort þau koma frá einstaka ráðherrum og ríkisstjórn. Það er ekkert nýtt. Það er heldur ekkert nýtt að menn telji hér í umræðu að þau frumvörp sem verið er að mæla fyrir standist ekki lög. Um það er hægt að nefna fjölmörg dæmi.

En það gefur augaleið að þegar frumvörp eru unnin í ráðuneytum af lögfræðingum í samvinnu við hagsmunaaðila telja menn sig ekki vísvitandi vera að leggja fram eitthvað sem ekki stenst lagalega skoðun og sé ekki í samræmi við gildandi lög. Það þarf ekki að láta sér detta annað í hug en að það sé lagt fram í góðri trú og reist á grundvelli þeirrar vinnu sem farið hefur fram, að þau frumvörp sem eru lögð fram hér standist alla þá skoðun. Þannig er með þetta mál.

Það verður síðan að koma í ljós í meðförum þingsins hvort grundvöllur er fyrir þeim hugmyndum eða vangaveltum sem hv. þingmaður hefur um þetta mál, að það standist hugsanlega ekki lög. Það er viðtekin venja í vinnu nefnda að láta fara fram slíka vinnu á vettvangi þingsins. Ég geri bara ráð fyrir að það verði eins í þessu máli og mörgum öðrum.