146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[17:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það áðan að það er í sjálfu sér sjálfstæð ákvörðun á hverjum tíma, og hún getur verið umdeild, hvaða heimildir liggja til grundvallar því að halda eftir ákveðnum fjárhæðum í jöfnunarsjóðnum og síðan þeirri umfjöllun um hver áhrifin eru af ákvörðunum sem eru teknar hér á Alþingi, á tekjur og tekjustofna sveitarfélaga. Ég tel að það hafi í sjálfu sér ekkert breyst í grundvallaratriðum varðandi þetta mál sérstaklega. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að í vinnu nefndarinnar þarf að fara yfir þetta mál. Það er slæmt yfir höfuð þegar ágreiningur skapast um mál sem þetta á vettvangi sveitarfélaga, þeim góða samstarfsvettvangi sem þau eiga. Ég held að það sé mikilvægt að ná um það einhverri sátt. Það verður þá að koma í ljós í málsmeðferðinni hvort náðst geti um það einhver niðurstaða í þinglegri meðferð.