146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni andsvarið. Já, ég hygg að við séum sammála um nauðsyn þess að auka tekjur ríkissjóðs. Ég hef heyrt hv. þingmann og flokk hans tala um gjöld tengd bílastæðum. Það er ein leið. Ég verð að játa að ég hafði ekki séð það fyrir mér að tvírukkað yrði við bílastæðin. Annars vegar yrði beint bílastæðagjald, eða stöðugjald eins og er í bílastæði í þéttbýli, og hins vegar einhvers konar gjald sem rynni í almenna innviðauppbyggingu. Það sem hv. þingmaður talaði um sem hugleiðingar mínar um þjónustugjöld og í hvað ætti að nota þau eru í raun engar hugleiðingar, það er einfaldlega bundið í lög hvernig fara má með þá fjármuni sem nást inn í gegnum þjónustugjöld.

Ég fagna því að skapandi hugsun sé beitt og hlakka til að sjá útfærslu hjá hv. þingmanni eða hæstv. ráðherra málaflokksins, eða flokki hv. þingmanns, á því hvernig því yrði best við komið. Sjálfur held ég að við þurfum einfaldlega að hafa smákjark til að stíga alvöruskref í þessum málum. Við þurfum að þora að fara í útgjöld án þess að þeim sé markaður nákvæmur tekjustofn. Ég tala sérstaklega um landvörslu í þeim efnum. Það á ekkert að bíða eftir tekjum í það. Það á bara að auka fjármuni til landvörslu nú strax fyrir sumarið, svo er hægt að skoða með tekjur. Síðan á almennt að skoða allar leiðir þegar kemur að tekjum, hvort sem það eru breytingar á virðisaukaskatti, komugjöld, gistináttagjöld, eða hvað það er. Leiðin sem þingmaður talaði um er fín í það púkk.