146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Við erum alveg sammála um hvað þjónustugjöld eru. Ég var ekki að meina það í þeim skilningi, það er auðvitað mikill munur á því hvort þú ert með þjónustugjöld eða skatt. Ég held að það sé skynsamlegt, eins og hv. þingmaður bendir á, að skoða ýmsar leiðir og útfærslur. Ef menn fara einhverja þá leið sem tengist því að ferðamenn komi á ferðamannastað og greiði gjald fyrir að njóta náttúrunnar og nýta sér þá aðstöðu sem þarf að byggja upp til að sú upplifun verði sem best þá sé ég ekki fyrir mér að menn þyrftu að fara í gegnum tvö gjaldhlið til að uppfylla það. Ég sé tæknilega ekkert því til fyrirstöðu. Ég er ekki að segja að áform séu uppi um það að þú getir bæði borgað þjónustugjald og skatt þegar þú ferð inn á bílastæðið.