146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[17:46]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég ekki alveg með á nótunum vegna þess að ég leit fyrst og fremst á þessi bílastæðagjöld sem tekjuöflun. Nú kemur fram, í máli hv. þm. Teits Björns Einarssonar, að þetta er líka aðgangsstýring. Þar vil ég setja stórt spurningarmerki. Ég held ekki að gjald á bílastæðum leiði til aðgangsstýringar. Hægt er að hugsa sér að stærð bílastæðis leiði til aðgangsstýringar, þ.e. að búið verði til 500 bíla stæði við Geysi og síðan verði öllum vísað frá sem koma eftir að það er orðið fullt. Er það meiningin? Ég skil ekki alveg þessa aðgangsstýringarhugmynd með bílastæðum og bílastæðagjöldum. Ég held að málið sé miklu flóknara þegar kemur að aðgangsstýringu. Það er miklu flóknara mál en stærð bílastæðis eða upphæð gjaldsins, nema hvort tveggja sé.

Nú spyr ég hv. þm. Teit Björn Einarsson: Sér hann fyrir sér að 500 bílastæði — sú tala er úr lausu lofti gripin — við Geysi séu um leið aðgangsstýring að Geysi?