146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[18:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er sammála honum um að það þarf að ræða þessi mál heiðarlega. Við þurfum að vera tilbúin að skoða hvað sem er að mínu mati. Ég skal í anda þess heiðarleika viðurkenna fúslega að ég er vaklandi þegar kemur að ýmsum efnum í þessu og togast á í mér hugmyndin um að það eigi ekki að kosta fólk neitt að skoða landið sitt, og svo það að ég geri mér grein fyrir að það þarf eitthvað að gera þannig að kannski er það nauðsynlegt. Ég játa bara á mig ákveðna vanþekkingu á málinu, kannski af því að við höfum ekki skoðað það nógu mikið, en ég vil skoða það meira til að fastmóta mér afstöðu í því.

Ég heyrði hv. þingmann tala um mismunandi gjaldtöku til að stýra umferð og vísaði hér í bílastæðagjöld í Reykjavík. Er hv. þingmaður að vísa þá til þeirra bílastæðagjalda sem við ræðum um í þessu frumvarpi eða almennt til gjalda, komi til þeirra á ýmsum náttúrusvæðum, að þau væru þá mismunandi eftir því hve vinsæl svæðin eru?

Ég veit ekki hvort ég á að leggja út í að spyrja hv. þingmann út í aðrar hugmyndir hans um einhvers konar tekjuöflun þegar að þessu kemur, eftir að hafa verið snupraður hér áðan fyrir að spyrja hv. þm. Teit Björn Einarsson út í annað efni en var til umræðu akkúrat á þeirri stundu. En þó þætti mér gaman að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um hvort hann hafi velt fyrir sér einhverjum öðrum mögulegum tekjuöflunarleiðum þegar kemur að þessum málum.