146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

umferðarlög.

307. mál
[18:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa málefnalegu umræðu sem skýrir vel við hve mikinn vanda er að etja í þessu, vanda sem blasir við okkur á hverjum degi. Með einhverjum hætti verðum við að bregðast við honum. Ég tel að þetta mál eitt og sér geti verið eitt af þeim atriðum sem geti hjálpað til í þeim efnum en það dugar ekki eitt og sér.

Við höfum reynsluna af því í Þingvallaþjóðgarði hvernig tekist hefur til með gjaldtöku. Áðan var vitnað í ummæli þjóðgarðsvarðar um að hún hefði hreinlega bjargað innviðauppbyggingu á þeim merkilega stað. Þannig held ég að það geti orðið víða. Þetta gerir líka alveg örugglega mörgum sveitarfélögum kleift að fara í framkvæmdir, fara í sjálfstæða innviðafjárfestingu til að búa um viðkvæma ferðamannastaði, efla öryggi ferðamanna sem þar fara um og þannig má lengi telja.

Við hljótum aftur að velta því fyrir okkur að af þessu geta til lengri tíma skapast miklar tekjur. Þessi gjaldtaka sem slík er alveg skýrt mörkuð með það hvaða takmörkunum hún er háð, þ.e. í hvað má nota það sem af henni kemur. Við höfum svo sem fordæmi úr öðru í því sambandi eins og hafnargjöld og slíkt.

Það hlýtur því að verða til umhugsunar, þegar frá líður og við höfum náð þeim áfanga á þessum stöðum og öðrum að byggja vel upp, að þá blasir enn við okkur sú staðreynd að í þessu stóra, fallega landi eru tækifærin nánast endalaus þegar að því kemur að skoða náttúru. Það hefur oft flogið fyrir í umræðunni að mikilvægt sé að dreifa þessu álagi, reyna að koma ferðamönnum víðar, búa til fleiri segla víða um land til að laða ferðamenn að og draga þannig úr álagi á þeim stöðum sem eru fjölsóttastir og opna ný tækifæri á nýjum stöðum.

Með þessari gjaldtöku er í raun ekki hægt að láta fjármagnið flæða á milli. Við getum ekki látið gjald sem mögulega væri innheimt við Vatnajökulsþjóðgarð renna til annarra verkefna, t.d. í Kerlingarfjöllum eða á öðrum svæðum þar sem mjög mikilvægt er að bregðast myndarlega við til að vernda náttúru og tryggja öryggi ferðamanna og greiða þeim leið. Það er því ekki ólíklegt að mínu mati að þegar fram líða stundir muni þingið þurfa að glíma við það hvernig við ætlum að nýta fjármagn sem kemur inn á einum stað til uppbyggingar annars staðar. Þá er þetta orðin einhvers konar skattheimta sem að mínu viti ætti að vera eyrnamerkt sem náttúruverndargjald sem rynni þá óskipt til slíkra verkefna. Það gefur augaleið að þar er í mörg horn að líta. En þetta geta orðið umtalsverðar tekjur. Það blasir við að farið verður af stað nú þegar á nokkrum stöðum, og ég held að þetta muni lyfta grettistaki eitt og sér á ákveðnum svæðum. Ég tel líka að annars staðar eigi að fara að fordæmi Þingvallaþjóðgarðar og hefja gjaldheimtu, t.d. í Vatnajökulsþjóðgarði, í Dimmuborgum og við Gullfoss og Geysi, þessa augljósu staði. Það hefur tekið smátíma að slípa þetta til á Þingvöllum. Eflaust má betur gera einmitt með tilliti til þess sem hér hefur verið nefnt sem einhvers konar aðgangsstýring, þ.e. að reyna að jafna álaginu betur yfir sólarhringinn.

En hér erum við alla vega að stíga fyrstu skref. Ég held að við þurfum svo sem ekki að hafa áhyggjur af því á næstu árum að ekki verði úr nægum verkefnum að spila á öllum þessum stöðum. Þeir eru í brýnni þörf. Við vitum til dæmis að landverðir gegna gríðarlega miklu hlutverki á þessum stöðum, ekki bara gagnvart náttúruvernd og við að passa upp á viðkvæma staði heldur ekki síður hvað varðar öryggi ferðafólks. Það er markmiðið að við náum að byrja að stíga þessi skref og svara þessu kalli sem við okkur blasir.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að mér finnst umræðan hafa verið málefnaleg. Ég vona að við berum gæfu til þess hér á Alþingi að klára þetta mál fyrir vorið.