146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í frumvarpsdrögum sem nefnd um endurskoðun á félagsþjónustulögunum og lögum um málefni fatlaðs fólks skilaði til mín þegar ég var ráðherra í velferðarráðuneytinu var ætlunin að búa til samhljóða ákvæði sem tryggði bæði fötluðu fólki og öldruðum þessa þjónustu. Ég fletti einmitt upp lögunum um málefni fatlaðs fólks og þar kemur fram að það er gjaldtökuheimild þar líka þegar kemur að fötluðu fólki.

Hér er hins vegar verið að ramma þetta af. Við vitum að sveitarfélög hafa oft greitt með almenningssamgöngum, þannig að það er ekki endilega verið að greiða raunkostnaðinn við þá þjónustu. Eins og þingmaðurinn fór í gegnum hefur verið mikil framþróun, til að mynda þegar sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskólanna og skólaaksturinn var tryggður. Við sjáum líka að fleiri sveitarfélög eru farin að bjóða upp á strætóferðir, þannig að þá er það möguleiki. Hér er ítrekað að þegar einstaklingurinn er ekki fær um að nýta almenningsfarartæki eigi að bjóða upp á þessa þjónustu. Maður hefur séð í ýmsum verkefnum, ekki bara gagnvart akstursþjónustunni, enn á ný hversu miklu máli viljinn skiptir til þess að leysa úr málum. Þótt þetta mál snúi að öldruðum huga ég líka að réttindum fatlaðs fólks almennt. Þegar menn hafa virkilega meðtekið þessi réttindi hafa sveitarstjórnir oft náð að leysa mjög vel úr, jafnvel án þess að það sé viðbótarkostnaður, og hafa tryggt að þjónustan sé betri sem er veitt þeim sem þurfa á henni að halda.