146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

málefni aldraðra.

223. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur kærlega fyrir andsvarið. Ég myndi eiginlega frekar flokka þetta sem samsvar en andsvar.

Við ræddum fyrr í dag um tekjuhliðina varðandi úthlutun í gegnum jöfnunarsjóðina gagnvart sveitarfélögunum. Við heyrum reglulega sveitarfélögin benda á að þau hafi tekið að sér aukin verkefni, séu að reyna að veita betri þjónustu og það þurfi því að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna. Ég er mjög sammála því. Það eru svo mörg verkefni sem ég tel að sveitarfélögin eigi að sinna, geti sinnt betur, það snýr ekki hvað síst að félagsþjónustulögunum sem geta verið alveg gífurlega mikilvæg, t.d. í ljósi mikillar umræðu um fátækt síðustu daga í samfélaginu. Félagsþjónustulögin eru grundvallarlög til að hjálpa fólki til sjálfsbjargar og sjálfstæðs lífs á ný.

Það væri óskandi að við gætum hætt að ræða almennt að við þurfum að efla tekjustofnana og færum að gera það í reynd, þá ekki aðeins í gegnum það að heimila eða líta fram hjá þegar sveitarfélögin eru að rukka fyrir lóðir eða byggingarrétt, heldur horfa til þess að sveitarfélög fá ekki tekjur af fyrirtækjum sem eru í viðkomandi sveitarfélagi, einstaklingar sem eru með miklar fjármagnstekjur skila svo sannarlega ekki sínu. Ég held að það séu fjölmörg tækifæri til að tryggja að fleiri innan sveitarfélags greiði í sameiginlega sjóði og við getum þá nýtt það til að efla þjónustuna.