146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

258. mál
[18:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek og samþingmönnum hans í þingflokki Viðreisnar fyrir framlagningu þessa máls. Ég vona svo sannarlega að þetta verði eitthvað sem við getum náð saman um að breyta. Ég held að þingmaðurinn hafi fært hér mjög góð rök fyrir því. Við berum okkur mjög oft saman við Norðurlöndin og viljum vera sem líkust þeim og hér er svo sannarlega kominn tími til þess að við stígum þetta skref.

Ég vildi hins vegar bæta því við og spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að við þyrftum — samhliða því að verið er að stytta tímabilið varðandi kosningarétt erlenda ríkisborgara, þegar kemur að kosningum í sveitarstjórn — að tryggja að við getum komið á framfæri betri upplýsingum um mikilvægi þess að fólk af erlendum uppruna taki þátt í okkar lýðræðislega samfélagi. Eitt af því sem hefur til dæmis slegið mig, eftir að hafa farið í kosningaeftirlit annars staðar, er hve oft eru miklu nákvæmari upplýsingar á kjörstað um það hvernig fólk kýs. Það er svo mikilvægur þáttur í því að geta tekið afstöðu að hægt sé að nálgast upplýsingarnar, í því tilviki á fleiri tungumálum en akkúrat á íslensku.