146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

258. mál
[18:53]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni og framsögumanni þessa máls, Pawel Bartoszek, sérstaklega fyrir málið og framsöguna. Ég hef dálítið verið í því og ekkert verið feiminn við að játa á mig vanþekkingu. Held að það sé okkur hollt að gera það, þá eru meiri líkur á að við fræðumst.

Hvað þetta mál varðar ætla ég að segja að varðandi útfærsluna hef ég enga sérfræðiþekkingu. Mér finnst þau rök sem hv. þingmaður tiltók hljóma mjög vel. Mér finnst greinargerðin skynsamleg. Svo rímar þetta almennt við afstöðu mína um að sem flestir njóti sem mestra og bestra réttinda hér og tek því heils hugar undir það sem hv. þingmaður kom hér inn á.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra. En ég vildi koma hingað upp til að lýsa yfir stuðningi mínum með málið, ánægju með að við skulum takast á við þetta í umhverfis- og samgöngunefnd. Hv. þm. Pawel Bartoszek kom inn á það, og það kemur einnig fram í greinargerðinni, að margir þeirra sem málið tekur til greiði hér skatta. Það er mjög eðlilegt að mínu viti að þeim fylgi ákveðin réttindi. Það varð nú heilt land til hér árið 1776 undir slagorði sem mætti þýða eitthvað á þá vegu: Engar skattálögur án umboðs. Sem ég þori ekki fyrir mitt litla líf að fara hér með á frummálinu. Bæði óttast ég að hæstv. forseti snupri mig fyrir að tala ekki þingmálið okkar, íslensku, en ekki síður fyrir að hæstv. forseti snupri mig fyrir framburð á frummálinu. Ég held mér við þessa íslensku snörun; engar skattálögur án umboðs. Það er mjög skiljanleg krafa, ef maður er orðinn það stór hluti samfélags að maður er farinn að greiða til þess skatta og leggja töluvert til uppbyggingar samfélagsins, að því fylgi ákveðnar skyldur og réttindi.

Ég hlakka til að ræða þessi mál enn frekar innan nefndarinnar, hafi verið rétt tekið eftir hjá mér að málið kæmi þangað. Hvar sem það verður fagna ég þessu frumvarpi.