146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

Klíníkin og stytting biðlista.

[10:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hamingjuóskirnar. Það er mikil ábyrgð falin í því að vera ráðherra málaflokks. Ég tek henni af mikilli alvöru. Þess vegna hef ég undirbúið þessa ákvörðun mjög vel og kynnt mér málin eins og ég hef getað og til hlítar.

Já, ég tel mikilvægt að byggja upp og viðhalda getu í heilbrigðisstofnunum okkar. Því finnst mér mikilvægt í þessu biðlistaátaki að þær stofnanir sem leitað er til, Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, leitist einnig við þegar til þess er möguleiki að nýta aðstöðu og þjónustu annarra heilbrigðisstofnana til að byggja upp (Forseti hringir.) getu og viðhalda getu í kerfunum okkar. Það er í raun og veru hluti af fyrirmælum eða tilmælum sem við sendum til stofnananna.