146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

stefna stjórnarflokkanna um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.

[10:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Það eru allmikil tíðindi, finnst mér, sem hæstv. heilbrigðisráðherra færir þingi og þjóð úr þessum ræðustól, þ.e. hann er nokkuð afdráttarlaus í afstöðu sinni um að ekki verði farið í stórfelldan einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, eins og hefur greinilega staðið til eða verið í umræðunni að gera í það minnsta. Eins og ráðherrann segir verður það ekki gert án stórkostlegs undirbúnings og umræðu og er a.m.k. slegið af í bili miðað við orð ráðherra. Ég fagna því mjög.

Það er greinilegt hins vegar að það er tog og tos á milli stefnu stjórnarflokkanna og orða þingmanna og ráðherra stjórnarflokkanna í þessum málum. Stefna Sjálfstæðisflokksins er mjög skýr hvað varðar rekstur í heilbrigðismálum, þar er lagt upp með ekki bara fjölbreytt rekstrarform heldur meira með einkavæðingu en opinberum rekstri á meðan í stefnu Bjartrar framtíðar, sem við vitnum hér ítrekað til í, hefur verið slegið úr og í, boðið upp á fjölbreyttan rekstur eins og það heitir.

Hæstv. ráðherra sagðist í svari sínu áðan hafa undirbúið þá ákvörðun mjög vel, sem mér finnst hann hafa tilkynnt hér í dag, að ekki verði gerðir samningar við einkafyrirtæki um rekstur heilbrigðiskerfisins og reist hana á ýmsum gögnum sem hann hefur safnað að sér.

Þá spyr ég: Voru einhverjar viðræður í gangi í þessu tilfelli við Klíníkina um að gera samninga um rekstur í heilbrigðiskerfinu? Hver er afstaða ríkisstjórnar? Er einhugur í ríkisstjórn um ákvörðun fjármálaráðherra? Hefur þetta verið rætt í ríkisstjórninni? Standa ríkisstjórnarflokkarnir og ráðherrar ríkisstjórnarinnar að baki heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) í þeirri ákvörðun að einkavæða ekki í heilbrigðiskerfinu og ganga ekki til viðræðna um slíkt við nokkurt fyrirtæki?