146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

stefna stjórnarflokkanna um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.

[11:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég skal með glöðu geði taka þær ræður sem ég hef flutt í dag um málið, þar sem ég hef síendurtekið að ég muni ekki standa fyrir sérstakri einkavæðingu eða auknum einkarekstri í kerfinu, og prenta þær út um leið og þær eru komnar á vef þingsins og færa hv. þingmanni, því að það hefur ekkert breyst.

Það hvílir sú ábyrgð á hendi ráðherra og ráðherra heilbrigðismála að tryggja aðgengi að þjónustu og tryggja að sú þjónusta sé veitt sem ákvörðun hefur verið tekin um. Það var tekin ákvörðun á Alþingi um að fara í sérstakt átak til þess að vinna á biðlistum þrjú ár í röð. Það var byrjað á því átaki í fyrra. Því er haldið áfram í ár. Það er á ábyrgð heilbrigðisráðherra að undirbúa slíka aðgerð og gera það á þann veg að það sé víst að hægt verði að framkvæma þær aðgerðir sem til stendur að fara í.

Það var ekki hluti af þeim undirbúningi að velta því (Forseti hringir.) fyrir mér hvort það væri persónuleg skoðun mín eða míns flokks að (Forseti hringir.) við ætluðum að breyta um stefnu í miðri á. Það hefur ekki staðið til. Undirbúningur (Forseti hringir.) að þessari ákvörðun er eingöngu til að tryggja að (Forseti hringir.) verkið verði unnið og að almenningur (Forseti hringir.) og þeir sem þurfa fái að njóta þeirra aðgerða sem til stendur að gera.