146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:18]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Fyrir síðustu alþingiskosningar var eitt helsta slagorð Sjálfstæðisflokksins „Á réttri leið“. Ég ætla svo sem ekki að eyða mörgum orðum í það slagorð en vil þó benda á að sú leið verður ansi torsótt ef hún verður farin eftir íslensku vegakerfi.

Margumrædd samgönguáætlun, sem samþykkt var í október síðastliðnum, var mjög metnaðarfull, mér liggur við að segja að hún hafi verið alveg frábær. Hún var samþykkt í breiðri sátt allra flokka sem hér sátu á þingi, eftir sem ég best veit. Ég tel að fá mál af þessari stærðargráðu hafi notið jafn mikillar velþóknunar almennings og samgönguáætlun. Vilji þingheims endurspeglaði fullkomlega vilja almennings í það skiptið.

Af málflutningi fyrri ríkisstjórnar í aðdraganda kosninganna mátti skilja að í ljósi prýðilegs efnahagsástands væru betri tímar og betri vegir fram undan. Svo var mynduð ríkisstjórn í upphafi ársins. Þá kom annað hljóð í strokkinn: Ekki verður hægt að fjármagna samgönguáætlun nema að hluta til.

Ég vil benda á að eitt af fyrstu verkum fyrri ríkisstjórnar var að afnema sérstakt veiðigjald af útgerðinni sem skilað hefur ofboðslegum hagnaði sem á sér engin fordæmi síðan á síldarárunum. Síðan eru liðin fjögur ár. Ég vil benda hæstv. samgönguráðherra á að ef þessu veiðigjaldi hefði verið haldið til streitu hefði það skilað tugum milljarða samanlagt á þessum fjórum árum. Þessa milljarða hefði mátt nota til að styrkja samgöngukerfið og önnur kerfi sem eru að molna og morkna. En nei, fyrir því var ekki pólitískur vilji, því miður.