146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:20]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja þessa ræðu á að deila því með þingheimi að ég mun á næstu dögum halda upp á tíu ára bílprófsafmælið mitt, en ég tók bílpróf 27 ára gamall í tengslum við 50 ára afmæli Rómarsáttmálans. Ég játa reyndar að tengslin þar hafi kannski ekki verið þráðbein. Eitt af þeim fríðindum sem ég naut sem nemandi í bílprófsnámi var að geta farið einu sinni frítt í Hvalfjarðargöngin með leiðbeinanda mínum. Ég nefni hér Hvalfjarðargöngin vegna þess að vítin eru vissulega til að varast þau, en sigrar eru til þess að vera stoltur af og endurtaka. Hvalfjarðargöngin eru dæmi um framkvæmd sem heppnaðist vel og var fjármögnuð með vegtollum.

Það mætti auðvitað færa rök fyrir því að Hvalfjarðargöngin hafi á þeim tíma verið að einhverju leyti lúxusframkvæmd. Það var enn þá sú staða, og er reyndar enn, að vegir í stoðkerfi vegakerfisins voru enn ómalbikaðir, það voru einbreiðir vegir víða um land, og eru því miður enn. Á sama tíma má kannski færa rök fyrir því að ekki sé réttlætanlegt að færa peninga til í aðgerð sem er fyrst og fremst til þess að stytta vegalengdir. En það er auðveldara að réttlæta það með þeim hætti að hægt sé að taka slíka aðgerð fram fyrir röðina ef hún ber sig sjálf og er fjármögnuð af þeim sem hana nota og að því loknu renni afrakstur þeirrar fjárfestingar, vegurinn, göngin, eða hvað sem það er, til almennra nota.

Ég held að þarna sé fordæmi sem við getum horft til og nýtt, ekki tala um veggjöld almennt, heldur tala um einstakar framkvæmdir, hvað það er sem við viljum sjá gerast í vegsamgöngum út frá höfuðborgarsvæðinu og hvernig við hyggjumst fjármagna það.