146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samgönguáætlun.

[11:31]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Þegar ég var krakki og unglingur kom einn ágætur maður stundum í heimsókn til fjölskyldu minnar norður á Akureyri. Hann var afskaplega þægilegur viðskiptis, klappaði mér á kollinn og spurði hvernig mér gengi í skólanum og var áhugasamur um hagi mína og fjölskyldu minnar. Mér þótti mikið til þessa manns koma. Hann var nefnilega stjórnmálamaður. Mörgum árum síðar læddist þó að mér efi, ég uppgötvaði nefnilega að þessar heimsóknir voru að jafnaði skömmu fyrir kosningar. Það var svolítið skemmtileg tilviljun. Ég er ekki viss um að þessi umhyggja hafi verið ekta. Ég er hins vegar viss um að áhugi viðkomandi á atkvæðum foreldra minna var ekta. Þar liggur hundurinn grafinn. Þjóðin fær að segja álit sitt á fjögurra ára fresti, síðan ekki söguna meir. Jafnskjótt og búið er að telja upp úr kjörkössunum virðast sumir þeir aðilar sem hljóta kosningu til Alþingis gleyma loforðunum og stefnumálunum.

Það er eindreginn vilji þjóðarinnar, sveitarstjórnanna og fyrirtækjanna í landinu, að farið verði í miklar framkvæmdir í samgöngumálum. Ákallið er hávært og ég trúi því ekki að ríkisstjórnin ætli að skella við skollaeyrum. Framkvæmdarvaldinu ber með stuðningi löggjafarvaldsins að beygja sig undir vilja þjóðarinnar í þessu máli sem öðrum. Þá fyrst verður hægt að segja að við séum á réttri leið.