146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

lax- og silungsveiði.

271. mál
[11:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og vil segja að ég tel fulla ástæðu til þess að hafa áhyggjur af álastofninum. Að sjálfsögðu tel ég að Ísland eigi með sínum fiskveiðistjórnartækjum að vernda stofna dýra sem eru í hættu. Án þess að vera neinn sérstakur sérfræðingur í álum þá veit ég nógu mikið til að vita að orðið hefur rosalega mikil fækkun í þessum stofni.

Ég hef heyrt að ein af skýringunum á þessari gríðarlegu fækkun í stofninum sé plastmengun í hafinu, að míkróplast eða plastagnir fari svo illa með álastofninn. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í þessu samhengi hvort farið hafi fram einhver umræða milli ráðuneytis hennar og umhverfisráðuneytisins. Hér er jú skörun á milli ráðuneyta þar sem við viljum annars vegar gera ýmislegt til að vernda fiskstofninn, sem er þá að hluta til á vegum umhverfisráðuneytisins, og svo hins vegar að nýta stofna okkur til hagsbóta sem samfélags. Þessi tvö mál togast á. Ég átta mig á að þetta er ekki beinlínis á verksviði hæstv. ráðherra en tengist þó.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur farið fram einhver umræða um að gera rannsóknir í þessu skyni? Að Ísland leggi þannig sitt af mörkum til þess að kanna hvort það sé (Forseti hringir.) plastmengun að kenna að svona sé komið fyrir álastofninum?