146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

lax- og silungsveiði.

271. mál
[12:23]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segist vilja fara ábyrga leið. Þar erum við algerlega sammála. Það byggir m.a. á því að afla sér og nýta sér þá bestu þekkingu sem til er til að undirbyggja ákvarðanir. Ég er sammála því að mikilvægt sé að hafa heimildarákvæði sem þetta efni, en það tvinnast eiginlega saman hér og svífur yfir þessari greinargerð að banna eigi álaveiðar. Það er byggt á vissulega slæmum tíðindum frá útlöndum, því að að einhverju leyti eru þetta sömu stofnarnir sem undir eru. En til þess að geta tekið ábyrgar ákvarðanir á að byggja þær á þeirri bestu þekkingu sem til er. Ég tel, við lestur greinargerðar sem fylgir frumvarpinu, að þar sé aumlega til stofnað hvað varðar þekkingargrunninn.

Því miður mætti í þessu tilviki vera meiri þekking á þessu sviði innan Hafrannsóknastofnunar. Við skulum orða það þannig. Kannski er hún meiri hjá fyrrverandi starfsmönnum stofnunarinnar en þeim sem starfa þar nú. Ef taka á ábyrgar ákvarðanir byggðar á þekkingu tel ég óhjákvæmilegt sé að leita sér þekkingar víðar en einungis hjá þeirri stofnun, svo það sé sagt.