146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[12:38]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að greinargerðin sem fylgir frumvarpinu er athyglisverð og margt greinargóðra upplýsinga þar og talsvert meira í hana lagt en greinargerð sem ég vísaði til í öðru máli þar sem aðeins minna var farið í það.

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að það sé byggð upp sjálfbær nýting áfram á þörungum á Breiðafirði líkt og annars staðar við landið eftir því sem við á. Það er ánægjulegt að það sé vaxandi áhugi á að nýta þetta. Auðvitað þurfum við að horfa líka til þess starfs sem Þörungaverksmiðjan hefur verið að gera á Reykhólum, bæði í hefðbundinni vinnslu, svo er verið að gera marga nýja spennandi hluti. Ég fékk tækifæri til að kynna mér það enn betur síðastliðið haust og það er virkilega merkilegt. Einnig eru fleiri við Breiðafjörðinn að hugsa sinn gang. Það þarf auðvitað að skipuleggja þetta og horfa líka sérstaklega til stöðu þeirra sem hafa verið í þessu áður og að byggja nýtinguna upp með sjálfbærum hætti.

Ég legg mikla áherslu á að þó að búið sé að vinna ýmsar rannsóknir og verið að vinna rannsóknir þá þarf miklu meira. Það er það mikið undir. Þörungarnir eru neðst í fæðukeðjunni, þess vegna ef eitthvað fer úrskeiðis getur það haft keðjuverkandi áhrif alla leið. Ég undirstrika það. Það er reyndar alls konar önnur nýting sem þarf að horfa til varðandi þangskurðinn og slíkt þannig að það verði ekki árekstrar við aðra nýtingu, ég vil nefna það.

Ég vil líka leggja áherslu á hlutverk svæðisbundinna rannsóknasetra svo sem Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi, Háskólasetur Vestfjarða og fleiri, ekki síður en rannsóknasetrið Vör sem Hafró rekur, að þau hafi þarna hlutverk. Ég vil kannski heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um það að segja, hvort hún geti ekki séð fyrir sér að þessar svæðisbundnu stofnanir fái hlutverk (Forseti hringir.) í þessum rannsóknum og vöktun ef af verður.