146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[12:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég svari spurningu hv. þingmanns sem kom hér undir lokin þá sé ég það að sjálfsögðu fyrir mér. Við eigum að nýta okkur þær stofnanir sem við höfum úti á landi. Ég held að þannig styrkjum við líka innviðina, en auðvitað er það alltaf gert á vísindalegum forsendum. Ég vil ekki grípa fram fyrir hendurnar á þeim sem bera ábyrgð á rannsóknunum, en ég geri mér hins vegar fyllilega grein fyrir því að það er um mikla þekkingu að ræða á þessu svæði. Við erum búin að byggja upp ákveðnar einingar á svæðinu sem hv. þingmaður nefndi en líka t.d. á Ísafirði þar sem er ákveðinn kjarni sem við sjáum fram á að geti orðið mjög öflugur þar sem er samspil margra stofnana. Þegar ég var þar kom alveg skýrt fram af hálfu starfsmanna þeirra stofnana sem þar eru, hvort sem það er MAST, Hafró, Veðurstofan eða aðrar stofnanir, að það gagnast þeim mjög að vera í þessu sambýli og þá verða um leið niðurstöður byggðar á sterkari grunni, rannsóknir gerðar o.s.frv. Allir kraftar eru nýttir hverju sinni. Ég sé það alveg fyrir mér.

Hins vegar vil ég taka undir það sem hv. þingmaður sagði sérstaklega um sjálfbærnina, ég undirstrika það að ég er sammála honum hvað það varðar. Við þurfum að styrkja sjálfbærnina sem slíka, við þurfum að gæta vel að rannsóknum og um leið styrkja þær rannsóknarstofnanir sem um ræðir. Við þurfum að átta okkur á að það þurfa að koma mjög skýr merki út úr slíkum rannsóknum því vissulega eru þörungarnir neðstir í fæðukeðjunni og geta haft gríðarleg áhrif á lífríki á þessu svæði ef illa fer.

Um leið undirstrika ég það að mikil þekking hefur byggst upp á Reykhólum ekki síst. Þetta er að einhverju leyti brothætt byggð, en þarna hefur þó verksmiðjan orðið til þess að það er ákveðinn kjarni, ákveðinn grunnur sem er mjög mikill styrkleiki. Við verðum að gæta þess að íbúar svæðisins geti haldið (Forseti hringir.) áfram að sinna sínum störfum sem þar eru og að verksmiðjan geti haldið áfram að starfa, bæði í þágu (Forseti hringir.) samfélagsins fyrir vestan, en líka í þágu þeirra afurða og verðmætaaukningar sem hún er núna að skapa.