146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[13:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst þetta mál eins og flutningsmanni afar mikilvægt og gott og eiginlega alveg synd að þetta skuli ekki vera búið að gerast fyrir margt löngu. Eins og hér var rakið liggur húsnæðið og aðstaðan undir skemmdum sökum þess að ekki hefur verið bolmagn hjá þeim sem hafa stutt það undanfarin mörg ár þar á undan til þess að viðhalda því, hvað þá að koma því í þá starfsemi sem til þarf. Ég man að þegar ég útskrifaðist úr Kennaraháskólanum var um tíma boðið upp á veitingar og þá var mér boðið þangað í útskriftarmat. Það var reglulega gaman að sitja í sveitinni í fallegu veðri og horfa á þetta mikilfenglega landslag sem þarna er. Þegar maður hugsar um alla sögu Jónasar skiptir máli að við höldum við með sambærilegum hætti minningu skálda okkar og merkisfólks sem hér var m.a. vitnað til, eins og gert er t.d. í Þórbergssetri. Ég fór í Þórbergssetur fyrir tveimur árum síðan. Það var mjög gaman að koma þangað inn. Eins og svo oft áður kom manni á óvart síðla í ágúst hvað var mikið af ferðafólki og virtist mikill áhugi á sögunni og því sem þarna var undir.

Það er ekki bara að Jónas hafi verið skáld í þeirri orðsins merkingu, hvort sem um er að ræða kvæði, sögur eða annað slíkt. Hann var auðvitað vísindamaður, með lærðustu mönnum síns tíma. Það voru ekki margir í hans tíð sem tóku bæði Bessastaðapróf og próf í Kaupmannahöfn. Það heyrði til tíðinda að menn lærðu eins mikið og hann gerði og hafði tækifæri til. Hann útskrifaðist sem sérfræðingur í steina- og jarðfræðum.

Ég man að þegar ég byrjaði að kenna, ég kenndi nú íslensku, þá var ákveðið 1996 að halda í fyrsta skipti upp á dag íslenskrar tungu á afmælisdegi Jónasar 16. nóvember. Menntamálaráðuneytið hefur í gegnum tíðina beitt sér fyrir því að halda daginn hátíðlegan, bæði í skólum og minna á hann í stofnunum og víðar í samfélaginu. Í framhaldinu var búinn til góður vefur sem geymir mikið magn upplýsinga um Jónas sem ég beindi m.a. nemendum mínum inn á til að nýta sér til að afla upplýsinga og gera ýmislegt skemmtilegt því tengt, fyrir utan margt annað sem gert er. Þar er að finna gríðarlega mikið magn af upplýsingum. Þar er líka kvikmynd sem Valdimar Leifsson gerði árið 2007 sem hægt er að kaupa, hún er um 70 mínútur minnir mig, tæplega bíómyndarlengd eða um það bil. Það þyrfti í rauninni að vera hægt, eins og hér er nefnt, að vera bæði með sýningar um sögu skáldsins og sögu Jónasar sem náttúrufræðings og vísindamanns, og bjóða fólki að koma að Hrauni og nýta sem fræðasetur og annað slíkt, hafa þetta með fjölbreyttum hætti, ég tel að það sé hægt. Ég tel að þær hugmyndir sem voru uppi um samrekstur á litlum veitingastað inni í gömlu húsi ásamt því að reka svona setur hefðu getað náð flugi, ekkert ósvipað og hefur verið gert með önnur slík setur. En þetta hefur um margt svipaða sérstöðu og Þórbergssetur, er langt í burtu frá þéttbýli, í sveit. Hér er Laxnesshúsið rétt við borgarmörkin, uppi í Mosfellssveit, og Nonnahús er á Akureyri. En öll þessi hús þurfa meiri stuðning. Það er fyrst og fremst það sem þetta snýst um. Það eru of litlir peningar settir í þetta. Það er synd þegar svona er látið drabbast niður þegar hægt er að gera vel fyrir í raun litla peninga að viðhalda þessu. Sagan kostar of litla peninga, ef maður getur orðað það þannig,

Mér finnst svo ótrúlega margt skemmtilegt í sögu Jónasar, uppátækið þegar hann gerðist Fjölnismaður og fór að gefa út tímaritið Fjölni ásamt skólafélögum sínum í Kaupmannahöfn og hélt því áfram um dágóða hríð. Það var mjög margt sem hann gerði sem ég er ekkert viss um að öll skáldin okkar geti státað af, þ.e. fjölbreytni hans sem einstaklings. Ég vona svo sannarlega að við náum samhljómi um að búa til umgjörð um þetta, í hvaða formi svo sem það verður, með þjónustusamningi eða einhverju slíku, en tillagan hljóðar upp á að fjármagna framkvæmd þeirrar uppbyggingar sem þarf að fara í og svo að skipuleggja starfsemina til framtíðar.

Ég vona að þótt komið sé fram í lok mars að það þurfi ekki lengri tíma til að setja þetta upp og gera svo áætlun til lengri tíma. Það er jú þannig með þetta hús eins og mörg önnur, það þolir ekkert mörg ár í viðbót án þess að eitthvað sé að gert. Hörgárbyggð er lítið sveitarfélag og hefur reynt að standa að baki þessu og vildi gera sitt til að þetta yrði að veruleika en þegar ekki hósti eða stuna kemur frá ríkinu skilur maður að það sé of mikið að færast í fang fyrir sveitarfélagið þegar stórir styrktaraðilar eins og sparisjóðirnir ganga úr skaftinu og illa hefur gengið að fá aðra inn í staðinn.

Ég ætla að leyfa mér að lesa eitt ljóð í restina eftir Jónas sem heitir Annað kvæði um Alþing og hann orti 1843 og hljómar svo, með leyfi forseta:

Ríða skulu rekkar,

ráðum land byggja,

fólkdjarfir firðar

til fundar sækja,

snarorðir snillingar

að stefnu sitja;

þjóðkjörin prúðmenni

þingsteinum á.

Svo skal hinu unga

alþingi skipað

sem að sjálfir þeir

sér munu kjósa.

Gjöf hefi eg gefið,

gagni sú lengi

foldu og firðum

sem eg fremst þeim ann.

Svona orti Jónas um Alþingi og alþingismenn. Ég held að þetta eigi ágætlega við enn þann dag í dag.