146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[13:47]
Horfa

Flm. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri nú hægt að standa hér í marga daga og tala um Jónas Hallgrímsson ef við hefðum rými til þess. En þar sem fyrri ræðumaður, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, var íslenskukennari um tíma og þar með kollegi minn vil ég segja að þessi ráðstöfun, að gera fæðingardag Jónasar að degi íslenskrar tungu, var mikið framfaraskref og til heilla fyrir þjóðina og til heilla fyrir tungumálið okkar sem skiptir okkur svo miklu máli. Ég velti því fyrir mér hvort áhersla hans á mikilvægi tungumálsins eigi ekki drjúgan þátt í því enn þann dag í dag og að við höfum þó þessa meðvitund um að halda íslenskunni á lofti.

Ég tók líka eftir því að hv. þingmaður talaði um að Hraun væri dálítið langt frá byggð. En Hraun er í alfaraleið. Við erum þarna með þjóðleiðina á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ég held að það eigi ekki að vera nein fyrirstaða.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann að því hvað hún telji að hefði mest aðdráttarafl fyrir almenning til að koma að svona setri eins og Hrauni í Öxnadal.