146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[13:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki komin svo langt, því miður, að geta svarað í bundnu máli svona spontant. Það lærist kannski með tímanum. Gaman hef ég nú hins vegar af að lesa ljóð, Jónasar sem og annarra.

Ég þakka hv. framsögumanni fyrir andsvarið. Jú, ég tel auðvitað sem íslenskukennari að dagurinn hafi haft eitthvað að segja. Með það er eins og margt annað, um leið og maður lyftir því upp með einhverjum hætti og gerir hærra undir höfði leiðir það ósjálfrátt til þess að hlutirnir eru skoðaðir með öðrum hætti. Að minnsta kosti var það svo í mínum skóla og ég þekki þannig til í mörgum öðrum, bæði í yngri deildum barnaskóla og þeim eldri. Eins og hv. þingmaður rakti í vikunni er okkur sem örþjóð mikilvægt að reyna að halda í tunguna okkar. Það er mín skoðun alla vega. Þetta er hluti af því.

Það sem ég átti við þegar ég talaði um að þetta væri í sveit, vissulega er þetta í alfaraleið, er að það sem mér finnst svo sjarmerandi er einmitt staðsetningin á húsinu. Mér finnst það á mjög fallegum stað, með hraundrangana þarna fyrir ofan. Landslagið er gríðarlega fallegt og mikilfenglegt. Það sem ég átti við er að Þórbergssetur og Hraun eru samt sérstök þar sem þau standa. Það var kannski það sem ég átti við.

Ég held að það eitt og sér að gera húsinu hátt undir höfði í því umhverfi sem það er sem og að bjóða bæði upp á fræðasetur og blandaða sýningu af Jónasi sem náttúrumanni, af ferðalögum hans um landið og þá sögu, reyna að setja hana fram, ég held að það myndi hafa aðdráttarafl sem og ljóðin. Það er kannski bara vegna þess að mér finnst það svo spennandi. En auðvitað verður maður að hugsa út frá því hvað maður sjálfur myndi vilja sjá og ímynda sér hvort aðrir myndu líka vilja sjá það.