146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[13:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég er alveg sammála því. Maður hugsar oft um, eða ég a.m.k. sem bý í sveitarfélagi þar sem maður veltir fyrir sér hvernig hægt er að fá fólk til að stoppa, hvað maður geti gert o.s.frv. Oft hefur verið sagt: Það er komið nóg af söfnum. Það er ekki mín skoðun reyndar. En það hefur gjarnan verið sagt. Ég held að kostur þess í þessu tilfelli hvað varðar Jónas sé að hann var svo fjölhæfur. Það er hægt að vera með sýningar sem eru ekki eins ár frá ári. Það er til ógrynni af upplýsingum og efni þannig að það er hægt að breyta til. Ég held að það sé eitt af því sem þurfi. Við þurfum jú helst að hafa það þannig að fólk komi ekki bara einu sinni og þá sé það búið að sjá allt. Þess vegna held ég að það geti líka verið skemmtilegt að hafa þarna kaffi eða eitthvert léttmeti þannig að þú getir skroppið í kaffi, hvort sem þú ert á leiðinni norður eða suður eða bara í sunnudagsferð eða hvað það nú er, og líka hópar, skólahópar, allt þetta. Fólk sé ekkert endilega að sjá það sama ef það kemur með tveggja ára millibili.

Auðvitað eru svona sýningar ekki settar upp og þeim breytt í heild sinni sisvona, það kostar bæði tíma og peninga. En hér er úr nógu að moða. Ég kynntist Jónasi bara sem íslenskukennari í gegnum ljóðin og sögurnar. Það var ekki fyrr en ég fór að lesa meira sem ég uppgötvaði náttúrufræðinginn og ferðalög hans um landið sem mér finnst ekki síður spennandi. Maður getur séð það svolítið myndrænt fyrir sér. Þessi mynd sem ég vitnaði í eftir Valdimar Leifsson er líka ótrúlega skemmtileg. Ég er ekkert viss um að margir hafi séð hana því að hana þarf að kaupa. Það væri eitt sem ég held að svona setur gæti boðið upp á.