146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[14:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég gat ekki staðist freistinguna sem Sunnlendingur að koma hér og segja örfá orð um Jónas Hallgrímsson.

Það standa fáir nærri fólki af þessari kynslóð, kynslóð Jónasar, en sá ágæti maður. Það þarf ekkert að hugleiða lengi hvers vegna það er. Það er vegna hans eigin ágætis. Þrátt fyrir að svo sé er hann samt svolítið leyndarmál, þessi maður. Menn hafa hann ekki alveg á hreinu. Vitnað var hér í góða kvikmynd Valdimars Leifssonar. Titillinn á henni er einmitt „Hver var hann, þessi Jónas?“ Það eru orð að sönnu. En hann var vissulega höfundur hugtaka og orða og gerði íslensku máli mikið gagn. Það þarf mikla útsjónarsemi til að búa til orð eins og andrúmsloft. Menn hafa meira að segja ólíka merkingu á orðinu andrúmsloft. Sú er nú snillin.

Jónas gerði þó auðvitað meira. Hann innleiddi nútímaljóðagerð í raun og veru í þetta ágæta samfélag okkar og var um leið einn af brautryðjendum nútímanáttúruvísinda. Ég játa það alveg hér að hann stendur mér sjálfum persónulega mjög nærri því að ég er jarðvísindamaður og ljóðskáld og hef einhvern veginn alltaf horft til þessa ágæta manns sem, ég vil ekki segja fyrirmyndar en sem manns hvatningar.

Ég er með ákveðna hugmynd til viðbótar við þá sem fram kemur í þessari ágætu þingsályktunartillögu. Jónas Hallgrímsson var brautryðjandi á einu sviði, þ.e. skrifaði fyrstu eldfjallasögu Íslands. Auðvitað voru Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson búnir að skrifa um þessi mál en það var með svolítið öðrum gleraugum en Jónas. Óútgefin eldfjallasaga Jónasar Hallgrímssonar er eiginlega sú fyrsta sem hefur nútímablæ. Ég myndi telja það rétt að setur Jónasar Hallgrímssonar fyrir norðan faðmaði aðeins víðar og tæki inn mann eins og Þorvald Thoroddsen og eldfjallasögu hans um leið, eða við skulum segja frumherjastörf í jarðvísindum á Íslandi; Guðmund G. Bárðarson, sem ég er nú ekki viss um hvaðan var ættaður, og yngri frumherja eins og Sigurð Þórarinsson, sem varð jú á endanum heimsfrægur vísindamaður á vissum sviðum vegna öskulagatímatals sem hann var höfundur að ásamt fleiri mönnum. Hann er Vopnfirðingur. Allt ætti þetta nú ágætlega heima þarna.

Það sem ég legg til er að stækka þessa hugmynd og fjalla um meira en bara Jónas Hallgrímsson, þó að hann sé stór hluti af slíku setri, en að teygja það út í það að kynna fyrir fólki hvernig Íslendingar urðu sérfræðingar í eldgosafræðum eða eldfjallafræðum án þess að fara lengra en að seinni heimsstyrjöldinni eða svo.

Ég hef hannað einar 15 sýningar bæði hérlendis og erlendis, náttúrufarssýningar og annað. Ég sé möguleikana í þessu jafnvel þó að þessi staðsetning sé ekki á Akureyri eða í þéttbýliskjarna, heldur einmitt í þeirri fallegu og merkilegu umgjörð sem er á Hrauni. Svo ég tel þetta mjög þarft mál. Ég ætla ekki að fara í fjármálahliðina. Það verða aðrir að koma með gáfulegar tillögur í þeim efnum. En ég tel þetta mjög þarft mál sem á allan stuðning skilinn af þingheimi.