146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[14:08]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, auðvitað má gera þetta á marga ólíka vegu. Það sem vakti fyrir mér var í sjálfu sér að teygja þetta setur út yfir sjálfan Jónas með því einfaldlega að koma þarna inn með frumherjana, ekki alla íslenska eldfjallasögu eða eldfjallarannsóknir heldur eingöngu þessa örfáu menn. Gleymum því ekki að jarðfræðinga á Íslandi fram að seinni heimsstyrjöld mátti nánast telja á fingrum annarrar handar. Þeir komu allir að þessari sögu, þessum stærsta hluta íslenskrar jarðfræði sem kalla má eldfjallafræði, að draga þá inn í þá sögu sem Jónas er raunverulega upphafsmaður að. Sá hluti sýningarinnar er ekki aðalatriði. Aðalatriðið er eftir sem áður Jónas Hallgrímsson.

En hugsunin var eingöngu að útvíkka hugmyndina þannig að hún tæki til fleira og hefði þar með meira aðdráttarafl en einungis Jónas sjálfan. Ég er ekki alveg dómbær á það í sjálfu sér, en hægt er að útfæra þetta á marga vegu án þess að leggja út í stórkostlega mikið meiri kostnað. En gleymum því ekki að menn eins og Þorvaldur Thoroddsen skrifaði þykka eldfjallasögu á þýsku sem gefin var út að honum látnum. Guðmundur G. Bárðarson var einn af þessum frumherjum, eins og ég nefndi, og síðan kom Sigurður Þórarinsson með nýmæli inn í eldfjallarannsóknir á heimsvísu. Þar mætti setja strikið. Það er nú það sem ég var að reyna að gera grein fyrir nokkurn veginn í þessu stutta máli.