146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

kjötrækt.

219. mál
[14:11]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um kjötrækt, en ég nota það orð til aðgreiningar frá orðinu dýrarækt þar sem dýr er ræktað til manneldis eða til að nýta kjöt eða aðrar afurðir af dýri til manneldis. Tillagan gengur út á að Alþingi feli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kanna stöðu kjötræktar í rannsóknarlegum tilgangi — hvar framleiðsluferlið er statt, hversu langt er þar til afurðir kjötræktar verður samkeppnisfær framleiðsla — og að skipuleggja aðgerðaáætlun um innleiðingu tækni fyrir íslenskan landbúnað, og í raun sjávarútveg, með það að markmiði að flýta fyrir því að kjötrækt verði samkeppnishæf við afurðir af hefðbundinni veiði eða ræktun dýra til manneldis.

Almennt séð er kjötrækt aðferð til að búa til kjöt án þess að þurfa að slátra dýri. Hugmyndin hefur verið til frá 1912 þegar Alexis Carrel tókst að halda frumum úr hjarta kjúklings á lífi í 34 ár utan líkama lifandi lífveru, en það var einungis fyrir mistök nemenda, sem gleymdu að næra frumurnar, að þær dóu; var talað um The Undying Cell, eða hina ódauðlegu frumu í því sambandi. Winston Churchill spáði því árið 1931 að innan 50 ára — það stóðst reyndar ekki, en er kannski nokkuð nærri miðað við nýjustu spár — yrðum við laus við þann fáránleika að þurfa að rækta heilan kjúkling til þess eins að borða læri eða bringu. Árið 1995 samþykkti Matvælastofnun Bandaríkjanna (FDA) tilraunir til að rækta kjöt með það að markmiði að matur yrði ekki vandamál í löngum geimferðum — allt mjög göfug markmið.

Helsti kostur þess að rækta kjöt umfram dýrarækt til manneldis eru umhverfisáhrifin, sérstaklega með tilliti til þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir í dag hvað þau varðar. Þótt það eigi reyndar síður við á Íslandi en annars staðar hefur kjötrækt líka þann kost að ekki þarf að nota sýklalyf við hana. Við notum reyndar ekki sýklalyf í dýrarækt hér á landi en það er einn af kostum kjötræktar að ekki þarf að nota sýklalyf við slíka ræktun. Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á umhverfisáhrifum kjötræktar. Kjötrækt sendir 78–96% minna af gróðurhúsalofttegundum frá sér en hefðbundin dýrarækt, notar 99% minna landrými — það er rosalegur munur — notar 82–96% minna af vatni og 7–45% minni orku. Einungis í fuglarækt er minni orka notuð en í kjötrækt.

Óháð því hvað Ísland gerir til að undirbúa tilkomu þessarar tækni til matvælaframleiðslu munum við þurfa að glíma við þær breytingar sem kjötrækt kemur til með að hafa á neysluvenjur. Þó að eftirspurn eftir kjöti úr dýrum hverfi örugglega ekki, svipað og eftirspurn eftir villtri bráð hefur ekki horfið þó að við séum með húsdýr, minnkar hún líklega mjög, þó ekki sé nema vegna umhverfisáhrifa og dýraverndarsjónarmiða. Það hefur mögulega veruleg áhrif á landbúnað og sjávarútveg á Íslandi, jafnvel jákvæð áhrif, þar sem eftirspurn eftir afurðum úr lífrænni dýrarækt gæti aukist og slík framleiðsla orðið mun verðmætari. Áhrifin hér eru kannski öðruvísi en annars staðar í heiminum þar sem hugmyndin er að kjötrækt komi í raun í staðinn fyrir verksmiðjuframleiðslu á kjöti. Það er því mjög brýnt að Ísland sé undirbúið fyrir þessar tækniframfarir, bæði með aðgerðaáætlun og lögum.

Á síðasta kjörtímabili spurði ég þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um það hvort fylgst væri með þróun þessarar tækni og hvaða áhrif hún gæti haft á Íslandi. Einfalda svarið var: Nei og veit ekki. Það fannst mér áhugavert því að skömmu áður hafði verið tilkynnt að innan áratugar gæti þessi tækni orðið samkeppnishæf við hefðbundna verksmiðjuframleiðslu á dýrum til manneldis. Ég bendi fólki á að finna þá umræðu því að hún var mjög áhugaverð að öðru leyti. Þessar hugmyndir eru alla vega eitthvað sem við ættum að vita um; við ættum að vita hvers er að vænta.

Mér finnst það mjög áhugavert við þessa tækni að um er að ræða fyrstu alvörubyltinguna í matvælaframleiðslu frá því að við hættum að vera safnarar og veiðimenn. Allar tækninýjungar sem hafa orðið í landbúnaði síðan þá hafa í raun gengið út á að gera sömu hugmyndafræðina skilvirkari, hugmyndafræðina um húsdýr og fræ í akur; hugmyndafræði um framleiðslu sem er ekki háð nálægð við auðlindina en er ekki endilega í nálægð við neytendur. Það er það sem kjötrækt getur bætt við. Ekki er um að ræða staðbundna framleiðslu sem er háð því að setja girðingu utan um dýr á akri; við getum þess vegna framleitt kjötið í eyðimörk.

Út við sjóndeildarhringinn eru síðan aðrar tækninýjungar sem einnig eru mikilvægar, t.d. bylting í að búa til orku og byltingar í framleiðslu, eins og þrívíddarprentun og því um líkt. Það eru líka skref í átt að því að fara úr staðbundnum framleiðsluferlum í ákveðna dreifingu. Við það losnum við við hið risastóra dreifikerfi sem við stólum á til að flytja vörur frá einu heimshorni til annars, sem er gríðarlega kostnaðarsamt og er mjög óumhverfisvænt.

Hægt er að draga upp hliðstæðu við þessar tækninýjungar í kjötrækt við aðrar nýlegar tækniframfarir, t.d. hvað varðar stafræna byltingu tónlistar og kvikmynda. Allt í einu var dreifing tónlistar og kvikmynda ekki háð framleiðanda og dreifikerfi hans. Það leiddi til rosalegrar byltingar og vandamála hvað það varðar hvernig við höguðum því kerfi. Við erum enn að rífast um hvernig við eigum að hafa þetta. Í staðinn fyrir að lenda í rifrildi eftir á og alls konar veseni skulum við reyna að undirbúa okkur fyrir fram og reyna að átta okkur á því hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á samfélagið eins og það leggur sig.

Kjötrækt takmarkast ekki við húsdýr, hún nær utan um dýr sem ekki er eins auðvelt að setja girðingu utan um; ég meina ljón, hvali, erni, hvað sem fólki dettur í hug. Dýraverndarsjónarmið vegna veiða á dýrum sem eru í útrýmingarhættu eru mjög ströng, og við gætum í raun látið náttúruna vera. Þessi tækni býður upp á gríðarlega mikla möguleika.

Markmiðið með þessari þingsályktunartillögu er einfaldlega að búa okkur undir þær breytingar sem kjötræktartæknin kemur til með að valda í núverandi atvinnuvegi og í samfélagi manna, ekki bara á Íslandi heldur út um allan heim. Kannski verður þetta ekki að veruleika innan 10 ára, þeir vísindamenn sem spá því eru kannski í Kára Stefáns spádómum til að afla sér aukins rannsóknarfjár o.s.frv. En þó að tíminn verði tvöfalt lengri verða afleiðingarnar af þessu svo gríðarlegar að öll skref sem við stígum í þá átt að geta látið þetta gerast fyrr margborga sig, þá aðallega með tilliti til umhverfissjónarmiða og dýraverndarsjónarmiða eins og ég hef rakið.

Ég geng svo langt að segja að þessi tækninýjung sé ein grunnstoð þess að skapa frið í heiminum. Ef enginn er svangur er hvatinn til styrjalda einfaldlega miklu minni. Það á líka við um orkuna, en líklega er orkubylting í nánd sem gæti stuðlað að því að ekki verði samkeppni um land þess vegna, og ekki samkeppni um land vegna matvælaframleiðslu. Þessar tvær tækninýjungar gætu gjörbylt stöðu hernaðarmála í heiminum og hinni ríku hefð okkar til að rífast við nágranna okkar. Alla vega munu tilefnin til þeirra rifrilda verða mun léttvægari ef við þurfum ekki að rífast um það að hafa mat í magann.

Ég tel þetta ágætisæfingu í að hugsa til framtíðar. Það er nefnilega alltaf betra að vera undirbúinn fyrir breytingar sem við sjáum fram á að séu á næsta leiti í stað þess að vera alltaf í eltingarleik. Sú er ætlunin með þessari þingsályktunartillögu að búa okkur undir það að fara í þann farveg að hugsa til framtíðar í staðinn fyrir að vera í eltingarleik.