146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

kjötrækt.

219. mál
[14:21]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Herra forseti. Það eru ekki bara einhverjir undarlegir Píratar sem eru svolítið hrifnir af þessari hugmynd um ræktað kjöt. Þeir sem standa að Bændablaðinu, þeim gagnmerka fjölmiðli, hafa uppgötvað að þarna er á ferðinni í náinni framtíð að öllum líkindum tækninýjung sem gjörbylta mun heiminum, hvorki meira né minna. Í 5. tölublaði Bændablaðsins, sem út kom í byrjun marsmánaðar, er örlítill greinarstúfur sem ber yfirskriftina „Ræktað kjöt á hvers manns disk“, í þessu nefnda blaði. Ég ætla að leyfa mér að lesa hann, þetta er stutt lesning, með leyfi forseta:

„Framförum í ræktun á kjöti úr stofnfrumum hefur fleygt fram undanfarin ár og tæknilega ekkert sem stendur í vegi þess að hægt sé að rækta kjöt í kjötverum á svipaðan hátt og grænmeti í gróðurhúsunum. Rök talsmanna kjötræktunar eru m.a. að eldi á nautgripum og öðrum gripum til kjötframleiðslu sé sívaxandi umhverfisvandamál og siðferðislega rangt hvað varðar dýravelferð.

Rannsóknir síðustu ára hafa leitt til þess að kostnaður við eldi á kjöti hefur lækkað tugþúsunda sinnum. Í dag er kostnaður við hvert kíló á ræktuðu kjöti einungis þrisvar eða fjórum sinnum dýrara en við hefðbundið búfjáreldi. Talið er að ef áfram heldur í framförum í ræktun á kjöti eins og undanfarin ár verði ræktað kjöt í boði á disk þeirra sem þess óska á innan við áratug. Í dag er lítið mál að rækta hamborgara, en erfiðara hefur reynst að rækta ribeye-steikur og lundir. Tilraunir með að rækta kjúklingakjöt hafa gengið vel, en að svo stöddu er ekki vitað til þess að farið sé að rækta dilkakjöt. Auk þess að vísa til vaxandi umhverfismála og dýravelferðar mæra talsmenn ræktunar á kjöti tæknina á þeim forsendum að hún muni útrýma hungursneyð í heiminum. Samkvæmt kenningum um framleiðslugetu á ræktuðu kjöti á að vera hægt að rækta um 20 billjón kjúklinganagga úr einni stofnfrumu kjúklings á þremur mánuðum.“

Það er ekkert annað.

Herra forseti. Ég vona svo sannarlega að Íslendingar skipi sér í hóp þeirra þjóða sem láta sér annt um þessar miklu framfarir sem geta og munu gjörbreyta heiminum.