146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

skipting útsvarstekna milli sveitarfélaga.

270. mál
[14:45]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið heils hugar undir efni þingsályktunartillögunnar sem við ræðum hér. Vandamálið er stórt sem skapast við sumarhús í litlum byggðum þar sem byggingarkostnaður er langt yfir verðmati eigna. Ungt fólk í heimabyggð hefur hvorki aðgengi að kaupum né leigu á húsnæði og lítil bæjarfélög verða draugabyggðir hluta af ári.

Sveitarfélögin sjálf verða síðan fyrir mikilli tekjuskerðingu vegna þessa. Hér stígum við þó skref til þess að mæta þörfum minni sveitarfélaga í fjármögnun, sem gæti orðið til þess að lækka lóðaverð svo hægt sé að byggja á ný.

Píratar hafa fyrirliggjandi stefnu um að virðisaukaskattur verði eftir að hluta á þeim stað þar sem hann er inntur. En þingsályktunartillagan sem við ræðum hér er önnur nálgun á sama viðfangsefni, sem er að styrkja sveitarfélögin. Tillagan rímar því vel við hugmyndir um valdeflingu og stef í grunnstefnu Pírata um verndun þeirra valdaminni gagnvart þeim valdameiri.