146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

skipting útsvarstekna milli sveitarfélaga.

270. mál
[14:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til að taka undir þessa þingsályktunartillögu um að skipaður verði starfshópur um að finna út úr því hvort ekki sé skynsamlegt að hægt sé að skipta útsvarstekjum á milli tveggja sveitarfélaga. Við þekkjum það, og það gerðist kannski í meiri mæli upp úr aldamótum í uppsveiflunni sem þá varð, að mjög margir einstaklingar keyptu jarðir og jörðum var skipt upp í smábýli, lítil lögbýli, sem menn hafa síðan nýtt í vaxandi mæli til dvalar og jafnvel atvinnu að hluta til, annars vegar á þeim stað og svo í því sveitarfélagi sem þeir ellegar búa og hafa lögheimili í. Margir þessara aðila, eins og kom fram hjá hv. þm. og flutningsmanni Þórunni Egilsdóttur, hafa áhuga á að taka þátt í samfélaginu sem þeir dvelja í jafnvel hálft árið eða í það minnsta jafn stóran hluta ársins og á þeim stað þar sem þeir hafa lögheimili og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir vilji að tekjur þeirra renni jafnframt til sveitarfélagsins þar sem þeir dvelja.

Í mörgum löndum í kringum okkur hafa menn haft áhyggjur af þessari þróun. Það er sjálfsagt að hafa þær áhyggjur hér líka. Við þurfum jú að verja gott landbúnaðarland til matvælaframleiðslu. Þess vegna hafa sveitarfélög í auknum mæli tekið upp skýrar reglur þar að lútandi. Í landsskipulagsstefnu sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili voru einmitt sett slík ákvæði til stuðnings sveitarfélögunum, að hafa skýra stefnu um hvernig þau geta tryggt það í skipulagi að góðar jarðir til matvælaframleiðslu verði nýttar áfram til hennar. En það eru líka til önnur landsvæði þar sem ekkert er að því og er til bóta að halda áfram uppbyggingu fyrir þá sem vilja koma og dvelja í samfélaginu. Þess vegna getur þessi tillaga hjálpað til við að skapa tekjur inn í það samfélag. Það er m.a. vilji þeirra sem hafa ákveðið að skipta búsetu sinni með þessum hætti.

Mörg önnur lönd eins og Noregur og Danmörk, svo dæmi séu tekin, ganga vissulega miklu lengra, gera kröfu um búsetuskilyrði, þ.e. að það sé skylt að búa á jörðum sem menn kaupa. Í Danmörku er skylt að nýta landið til landbúnaðar. Það er ekki hægt að kaupa land og eiga það og gera eitthvað annað við það. Við höfum ekki velt fyrir okkur að ganga svo langt en ég vil þó minna á starfshóp sem þáverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, setti á laggirnar í haust og vonast til að núverandi ríkisstjórn fylgi honum eftir, sem sneri að því hvernig við getum varið ríkisjarðir og jarðir sem eru nýttar til matvælaframleiðslu til áframhaldandi matvælaframleiðslu og hvernig við förum með kaup og sölu á jörðum. Það er einfaldlega ekki þannig að jarðir eigi að vera eins og hver önnur fasteign. Þetta er land sem við nýtum til matvælaframleiðslu fyrir komandi kynslóðir ekki síður en okkur sem búum hér á landinu í dag.

Það er eitt sem ég vil koma á framfæri. Ég tel að það þurfi að skoða það mjög vel hvort þetta eigi að gilda líka um frístundahús. Það gæti orðið hængur á fyrir sveitarfélögin ef í frístundahúsum, þar sem ekki er leyfð heilsársbúseta, fer að búa fólk sem greiðir útsvar og getur þar af leiðandi eðlilega krafið sveitarfélagið um ýmsa þjónustu. Þá myndi verða ósamræmi á milli svæða sem menn skilgreina sem heilsársbúsetusvæði þar sem sótt er sorp, börn sótt í skóla og sjúkraflutningum sinnt og annað í þeim dúr, og hinna raunverulegu sumarhúsasvæða eða frístundabyggða þar sem slík búseta er ekki heimil.

En varðandi hinn þáttinn, allan þann fjölda jarða, hvort sem eru stórar jarðir eða jarðir sem er búið að búta niður í smábýli, held ég að þetta sé mjög góð tillaga og kem hérna fyrst og fremst upp til að styðja við hana og vonast til að hún fái góða umfjöllun í nefnd og komi aftur til þingsins til afgreiðslu síðar í vor.