146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

vextir og gengi krónunnar.

220. mál
[15:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd fékk einmitt fulltrúa lífeyrissjóða til að kynna þessi mál fyrir nefndinni. Þar kom m.a. fram að ávöxtunarkrafan setti ákveðið gólf fyrir ýmsa aðila sem voru í viðræðum við lífeyrissjóðina um vexti á lánum frá lífeyrissjóðunum. Það var eilítið deilt um hversu mikil áhrif það hefði, en fólk sem setið hafði hinum megin borðsins var mjög afdráttarlaust gagnvart því að lífeyrissjóðirnir litu á þetta sem mjög ákveðið gólf á vexti á lánum frá þeim. Það er því óhjákvæmilegt að þetta hafi einhver áhrif á kerfið utan lífeyrissjóðanna. Það er tvímælalaust nokkuð sem við þurfum að skoða betur og fá kerfisgreiningu á til þess að skilja hvað við erum að glíma við, og skoða hvaða áhrif hefur það í gegnum allt kerfið þegar við breytum stýrivöxtum í plús eða mínus. Allar upplýsingabeiðnir sem gera kerfin skýrari eru mjög vel séðar hjá Pírötum.