146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu leiguíbúða. Auk mín eru flutningsmenn Oddný G. Harðardóttir og Guðjón S. Brjánsson. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að ríkisstjórnin komi að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu þrjú ár þar á eftir.“

Tilefni þessarar þingsályktunartillögu eru grafalvarlegar aðstæður á húsnæðismarkaði. Hér er aðeins um mjög lítið skref að ræða af mörgum mikilvægum sem stíga þarf ef menn ætla að glíma við þetta vandamál. Ég átti nú von á því að fólk myndi flykkjast hingað í salinn til þess að leggja umræðunni lið og ausa úr viskubrunni sínum og hugmyndabanka, en eflaust eru þingmenn á skrifstofum sínum að velta því fyrir sér hvernig það getur gerst, eða úti í Byko að kaupa svuntu og hamar til þess að geta hafist handa.

Frú forseti. Ástandið á húsnæðismarkaðnum er orðið hrikalegt. Í raun er þetta eitt stærsta og mest aðkallandi verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Það hefur sett stóra hópa í gríðarleg vandræði og ekki síst ungt fólk. Verð er í hæstu hæðum. Þeir sem ekki eiga aura fyrir útborgun í íbúð lenda í klónum á óstöðugum og oft gráðugum leigumarkaði. Við því þurfum við að bregðast strax. Til þess þurfum við, eins og ég sagði áðan, að ráðast í margar aðgerðir. Sumar eru langtímaaðgerðir eins og þessi hér, vegna þess að það tekur tíma að byggja hús, en einnig þarf að finna bráðalausnir. Ég veit að hér hafa þingmenn fjölmargra flokka komið inn á ástand á leigumarkaði, leigulög sem þarf að breyta og skapa betri aðstæður fyrir leigutaka.

Við þurfum að byggja hagkvæmar leiguíbúðir sem stuðla að og byggja undir þróaðan leigumarkað og við þurfum að beina þeirri uppbyggingu til félaga sem ekki eru í gróðarekstri. En við þurfum einnig strax að huga að þeim einstaklingum sem ekki eiga fyrir útborgun og sitja fastir í foreldrahúsum eða á allt of dýrum leigumarkaði.

Fátæktarumræða síðustu daga hefur að mörgu leyti hverfst um þetta vandamál. Harðduglegt fólk, sem ætti undir engum kringumstæðum að vera í miklum vandræðum, þarf að velja milli þess að borga reikninga, leyfa börnum sínum að taka þátt í félagslífi eða jafnvel kaupa lyf. Það er að sjálfsögðu ekki boðlegt í jafn ríku landi og Íslandi.

Samfylkingin hefur beitt sér á margvíslegan hátt fyrir úrbótum í húsnæðismálum allt frá hruni enda hefur blasað við í allmörg ár að í óefni stefndi ef ekkert yrði að gert. Það er langt síðan rofaði til í ríkisrekstrinum. Það eru nærri fjögur ár síðan þingflokkur Samfylkingarinnar lagði fram tillögu til bráðaaðgerða til að mæta þessum vanda. En þáverandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, vildi ekkert með þær tillögur að gera og stefið var kunnuglegt; það þurfti að lækka skatta og auðlindagjöld og styðja við þá sem best hafa það. Hvernig er staðan nú? Það virðist eins og ný ríkisstjórn sé jafn ráðalaus og skýli sér bak við sömu hægri stefnuna. Það þurfti hótanir verkalýðshreyfingarinnar um að slíta kjarasamningum nú nýlega til að kreista fram fjárframlög til að standa við loforð sem eru forsendur síðustu kjarasamninga. Við verðum að hugsa stærra og tryggja að uppbyggingin sem fram undan er til að byggja aftur upp félagslegt úrræði á húsnæðismarkaði.

Á liðnum árum hefur glögglega komið í ljós hversu slæm skref Sjálfstæðisflokks og Framsóknar voru þegar þessir flokkar einkavæddu verkamannabústaðakerfið.

Meðal þeirra tillagna sem Samfylkingin hefur lagt til er að fylgjast betur með þróun á húsnæðismarkaði. Það er að koma í ljós núna að það hefðu menn betur gert fyrir nokkrum árum. Við þurfum að byggja upp almennan og félagslegan leigumarkað. Það voru mikil tækifæri til þess, sérstaklega þegar íbúðaverð var lægra en byggingarkostnaður. Við þurfum að bæta leigjendum aðstöðuna með hærri húsaleigubótum, styðja sveitarfélögin til þess að fjölga félagslegum leiguíbúðum og við höfum lagt fram tillögu að lögum um að útleiga einnar íbúðar í eigu einstaklings verði skattfrjáls. Sú tillaga mun ekki gera neinar stórkostlegar breytingar. Hún mun hins vegar samt mæta þessum Airbnb-vanda og útleiguvanda. Hún mun hvetja fólk til þess að huga frekar að því að leigja íbúðir sínar í langtímaleigu, til skólafólks eða ungs fólks sem þarf á íbúð að halda, frekar en að ætla að hagnast á ferðamannabólunni.

Ríkisstjórnin vildi ekkert með þessar leiðir gera, eins og áður sagði. En hvað gerði hún? Í stað þess að slökkva elda hellti hún olíu á bálið. Í staðinn fyrir að fara í bráðaaðgerðir hélt hún húsnæðismarkaðnum í gíslingu meðan beðið var eftir útfærslu skuldaniðurfellingar. Eftir dúk og disk komu síðan 80 milljarðar sem gögnuðust fyrst og fremst ríkasta fólki landsins og leiddi þar að auki til hærra fasteignaverðs. Ungu fólki og leigjendum var greitt enn eitt höggið á síðustu árum.

Aðkoma ríkisstjórnarinnar samkvæmt þingsályktunartillögu þessari skal vera á grundvelli laga um almennar íbúðir, nr. 52/2016. Uppbyggingin er nauðsynleg til að mæta kröfum stéttarfélaga um aukinn félagslegan stöðugleika og koma ungu fólki og leigjendum í öruggt húsaskjól. Þeir sem ekki eiga húsnæði búa við allt of þröngar aðstæður. Ef fólk finnur á annað borð leiguíbúð er verðið allt of mikil fyrirstaða. Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu fer hækkandi. Það hefur m.a. hækkað um nærri 70% frá 2011. Margir geta því hvorki keypt né leigt. Ástand á leigumarkaði hefur alvarlegar afleiðingar. Rannsóknir sýna nefnilega að leigjendur eru mun líklegri til að eiga í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda eru líklegri en önnur börn til að búa við skort og fátækt.

Fyrir tilstuðlan stéttarfélaga náðist mikilvægur árangur við gerð kjarasamninga árið 2015. Þá var samið um stofnstyrki til uppbyggingar á almennum leigumarkaði, að byggðar yrðu 2.300 íbúðir fyrir árið 2019. Það er algjör lágmarkskrafa að stjórnvöld standi við þau loforð, en þau er reyndar ekki að finna í gildandi fjármálaáætlun áranna 2017–2021.

Til að mæta eftirspurn eftir húsnæði næstu ára þarf að byggja 8.000–10.000 íbúðir á landinu og það fyrir árið 2019. Það byggi ég á tölum frá greiningardeild Arion banka. Menn spá líka frekari hækkun á fasteignaverði, og það mun auðvitað auka enn á vandræði þeirra sem ekki eiga fasteignir. Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld komi að þeirri uppbyggingu sem fram undan er og tryggi að sú uppbygging nýtist til að efla leigumarkaðinn. Stjórnvöld verða að tryggja að byggt verði húsnæði sem hentar barnafjölskyldum, ungu fólki og launafólki sem ekki á mikinn sparnað, hefur ekki notið góðs af hækkun húsnæðisverðs á liðnum árum og getur ekki nýtt sér lög síðustu ríkisstjórnar um séreignarsparnað.

Á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar 22. febrúar sl. kom fram hjá fulltrúum Alþýðusambands Íslands að fjármagn væri tryggt til að byggja 300 íbúðir á ári. Þá vantar íbúðir fyrir 300 til viðbótar. Mér skilst að félagsmálaráðherra hafi brugðist við og lofað því. En hér erum við að tala um að bæta í þann pakka vegna þess að það er algjörlega nauðsynlegt.

Þess vegna legg ég til hér með þessari ályktun að hafin verði strax bygging 1.000 almennra leiguíbúða næstu árin, eða samtals 4.000 íbúðir. Stéttarfélögin hafa haldið því fram að hér skorti félagslegan stöðugleika. Þess vegna er kallað eftir skýrum yfirlýsingum um að staðið verði við loforð um uppbyggingu í húsnæðismálum, lægri greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu og lengra og betra fæðingarorlof. Alþingi verður að bregðast við þessum kröfum til þess að greiða fyrir sátt á vinnumarkaði og mæta brýnni uppsafnaðri þörf fyrir leiguhúsnæði.

Frú forseti. Að loknum þessum umræðum legg ég til að málið gangi til velferðarnefndar og fái þar skjóta meðferð.