146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Flutningsmaður kom einmitt inn á annað vandamál sem við eigum við að glíma í þessu. Samkvæmt Samtökum iðnaðarins, minnir mig að hafi verið, vitum við hversu mikið af húsnæði er í byggingu af því að það eru einhverjir tveir sem keyra um og handtelja. Það eru upplýsingarnar sem við höfum um hversu mikið af húsnæði mun verða tilbúið á næstunni. Kannski er Reykjavíkurborg með nákvæmari tölur fyrir þetta, en svona að öllu jöfnu úti um allt land er handtalningaraðferðin sú aðferð sem notuð er, sem er einstaklega ónákvæm aðferð. Það er eitt af því sem við glímum við þegar við spyrjum um fjölda, 1.000 íbúðir í þessu samhengi. Vitum við hversu mikið er í rauninni í byggingu? Ef við vitum það ekki er rosalega erfitt að giska á hvort fjöldinn ætti að vera meiri. En ég held að 1.000 íbúðir sé varlega áætlað miðað við greiningu Íslandsbanka og Þjóðskrár.

Ég man eftir að talað var í öðrum málum um að betrumbæta upplýsingakerfið til þess að fá betri tölur um stöðuna sem við erum í núna. Kannski er búið að laga það með því sem er í byggingu. Ég stórlega efast um það miðað við heildarvandann. En vandinn er gríðarlegur eins og hann birtist hérna, 70% hækkun á undanförnum árum. Hann birtist í rauninni í því að í mínu fyrra starfi hafði ég ekki efni á að safna fyrir íbúð nema af því að ég bjó hjá tengdó. Það var samkvæmt ráðum fyrrverandi félagsmálaráðherra, sem voru góð og gild í það skipti. Því miður hafa ekki allir tækifæri til þess að nýta sér slíkt. (Forseti hringir.) Við þurfum meiri upplýsingar. Betri aðgangur að upplýsingum gefur okkur færi á því að svara því hvort 1.000 íbúðir séu nóg.