146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:11]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir framsöguna og að leggja þessa þingsályktunartillögu fram sem fjallar um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að koma að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu þrjú ár þar á eftir. Það kemur fram í greinargerð að þetta skuli vera gert á grundvelli laga um almennar íbúðir sem samþykkt voru hér á Alþingi síðasta vor og tek ég undir það að uppbygging sé nauðsynlegt til að mæta kröfum stéttarfélaga um aukinn félagslegan stöðugleika og koma ungu fólki og leigjendum í öruggt húsaskjól.

Þessi tillaga er því byggð á máli um almennar íbúðir sem ríkisstjórnin undir forystu Framsóknarflokksins gerði að lögum á síðasta kjörtímabili. Það var hæstv. fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins sem lagði frumvarp um almennar íbúðir fram á hv. Alþingi. Málið gekk til efnislegrar vinnslu í hv. velferðarnefnd Alþingis og með mikilli ánægju var málið afgreitt þaðan út í þverpólitískri sátt.

Ég fagna því að lögð er áhersla á að nýta þessi lög til uppbyggingar á því sem lagt er til hér því að þetta var mjög stórt mál hjá okkur hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnartíð okkar. Samkvæmt þeim lögum sem þessi þingsályktunartillaga byggir á geta leigufélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða — sem er mjög mikilvægt og ég heyri að flutningsmaður hv. þm. Logi Einarsson tekur undir að það sé mjög mikilvægt á okkar húsnæðismarkaði — fengið 18% stofnframlag. Almenna reglan er sú að stofnframlag frá ríki sé 18% og 12% frá sveitarfélögum og stofnframlag sveitarfélaga getur verið í formi afsláttar af gatnagerðargjöldum eða með úthlutun lóða frá sveitarfélagi eða einhvers konar blöndu af hvoru tveggja.

Auk þessa samkvæmt þessum lögum sem Framsóknarmenn og hæstv. ráðherra Framsóknarmanna lét vinna á síðasta kjörtímabili geta þeir sem byggja íbúðir t.d. fyrir námsmenn og öryrkja fengið 4% aukaviðbótarframlag frá ríkinu. Þannig var frumvarpið þegar það kom til hv. velferðarnefndar, en þegar frumvarpið var í meðferð nefndarinnar voru gerðar ýmsar breytingar til þess að koma til móts við byggðasjónarmið því það var mjög mikilvægt að horfa til uppbyggingar á leiguhúsnæði víða um landið og að lögin næðu til þeirra. Lagt var til að hægt væri að fá 6% aukastofnframlag frá ríkinu ef byggt væri á köldum svæðum eða svæðum þar sem ekki hefði verið byggt í töluvert langan tíma og þar sem ýmis vandkvæði væru á því að fá lánveitingar, þar sem lánastofnanir hafa ekki lánað til samræmis inn á þau svæði og gert er á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring. Sama átti við um þessi köldu svæði og þau skilyrði sem sett voru þar um, það væri hægt að fá 4% aukastofnframlag frá sveitarfélögum og gæti það verið einmitt í formi gatnagerðargjalda eða einhvers konar annarra þátta.

Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni var þetta stóra mál okkar Framsóknarmanna á síðasta kjörtímabili mikilvægur hluti af kjarasamningum árið 2015. Þessar 2.300 íbúðir sem greint var frá í samkomulaginu — áframhald þess verkefnis er reyndar ekki að finna í núverandi stjórnarsáttmála, en það hefur komið fram að halda eigi áfram með það og gefa jafnvel eitthvað í — það var samkomulag á milli fyrrverandi hæstv. ríkisstjórnar og stéttarfélaga á þeim tíma. Þessar aðgerðir voru jafnframt hluti af stefnu þáverandi stjórnvalda um að fólk hefði val um búsetuform, þ.e. að koma fram með þessar almennu íbúðir. Við breyttum lögum um húsnæðissamvinnufélög og komum fram með aðgerðir varðandi séreignarstefnuna.

Í ræðu áðan var talað um húsnæðisáætlanir og ég vil segja að það er mjög mikilvægt að unnar séu húsnæðisáætlanir og gerð greining á því hvar vanti húsnæði. Það er ánægjulegt að segja frá því að það var lagt fram frumvarp á síðasta kjörtímabili um að Íbúðalánasjóður fengi það hlutverk að halda utan um greiningu á húsnæðismarkaðnum, þ.e. að finna út hvar vantar húsnæði, hvar þörfin er mest og að kalla eftir því að sveitarfélög vinni húsnæðisáætlanir og unnið sé í takt við þær svo við séum ekki alltaf að, afsakaðu orðbragðið hæstv. forseti, elta skottið á okkur, í uppbyggingu á húsnæði, að við höfum áætlun um hvernig við eigum að bregðast við en séum ekki alltaf að bregðast við eftir á.

Það er allt í lagi að það komi hér fram líka að þessi skref sem stigin voru á síðast kjörtímabili voru ein stærstu skrefin sem stigin höfðu verið í átt að uppbyggingu leigukerfis í áratugi. Það komu ýmsar fréttir um það, það voru ekki eingöngu hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar á þeim tíma sem töluðu um það, heldur töluðu jafnframt stéttarfélög og aðrir aðilar um að þetta væru stærstu skrefin sem stigin hefðu verið í langan tíma. Við tökum undir það og höfum líka heyrt fréttir af því að það þarf meira.

Ég verð eiginlega að segja það hér, af því að hv. þm. Logi Einarsson hefur svolítið verið að skjóta á fyrrverandi ríkisstjórn, að hún hafi ekkert gert í leigumálum, að Samfylkingin, að þingflokkur hv. þingmanns var í ríkisstjórn í sjö ár áður en fyrrverandi ríkisstjórn tók við og það var ekkert gert í leigumálum. Ég held að við ættum núna að horfa fram á við og byggja á þeim góðu lögum sem unnin voru á síðasta kjörtímabili og stefna fram á við. Ég vísa því svolítið til föðurhúsanna þegar fólk og stjórnmálaflokkar eru gagnrýndir fyrir það að gera ekkert í málunum.

Ég ætla að nýta smá hluta af ræðutíma mínum, sem er reyndar að verða búinn en kannski gefst mér kostur á að koma að því í andsvörum af því að ég heyri að nokkrir hv. þingmenn ætla að koma í andsvör, til að segja að það þarf að horfa á húsnæðispakkann í heild sinni og efla leigumarkaðinn enn frekar. Þrátt fyrir þau orð sem ég sagði hér áðan þá fagna ég þessari tillögu og hlakka til að taka hana til meðferðar í hv. velferðarnefnd Alþingis. En það þarf að auka samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu á húsnæði, framboð á lóðum, til að reyna að auka framboð á húsnæði. Það þarf að skoða byggingarreglugerð enn frekar. Það þarf að skoða jafnvel frekari úrræði sem stuðningsúrræði fyrir þá sem vilja kaupa húsnæði því að við fórum í aðgerðir á síðasta kjörtímabili til að liðka fyrir því. Hv. þingmaður sem hér stendur lagði fram þingmál um bresku aðferðina í húsnæðiskaupum til að koma á móts við þá sem ekki eru á vinnumarkaði til dæmis, sem væri kannski svipað fyrirkomulag og gamla séreignarsparnaðarformið, en málið hlaut ekki brautargengi sem þingmannamál á þeim tíma.

Ég vil leggja áherslu á það í lokin að ég fagna þessari tillögu, legg áherslu á húsnæðisáætlanir svo við séum ekki alltaf á eftir á að slökkva eldana og við horfum á þrískiptan húsnæðismarkað í heild sinni sem er leigumarkaður, húsnæðissamvinnufélög og séreignarstefnan.