146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:20]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er prýðilega vel til fundið hjá hv. þingmanni að koma hingað upp og halda til haga á hvaða lögum þessi tillaga byggir. Það er rétt að hún byggir á lögum síðustu ríkisstjórnar. Í raun er sjálfsagt að virða góð verk hvaðan sem þau koma. Nú verður hægt að fletta því upp í þingritum eftir daginn í dag hvort ég hafi sagt að ríkisstjórnin hefði ekki gert neitt. Ég held ég hafi sagt að hún hafi ekkert gert með þær tillögur sem við vorum með. Það kann þó að vera rangt. Ýmislegt segi ég nú vanhugsað stundum.

Í þessari tillögu Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili birtist einmitt þessi fínofna félagslega taug sem er svo falleg í Framsóknarflokknum, en mér fannst hverfa töluvert á síðasta kjörtímabili, ekki síst þegar farið var í þessa stóru groddalegu aðgerð, sem var kölluð leiðréttingin.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann hvort hún telji leiðréttinguna svokallaða hafa verið góða og rétta leið á þessum tíma eftir á að hyggja, hvort hún hafi verið líkleg til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaðnum, sérstaklega hjá þeim sem erfiðast hafa það. Eða telur hv. þingmaður kannski að mögulegt hefði verið að nýta þessa tæplega 80 milljarða betur jafnvel til að byggja hér upp öflugan og stóran félagslegan húsnæðismarkað?