146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:22]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir andsvarið. Mig langar að byrja á að biðjast afsökunar ef ég hef misskilið orð hans; það var ekki ætlunin að snúa út úr orðum hv. þingmanns og bið ég hér með afsökunar á því ef mér hefur misheyrst.

Hann spyr um leiðréttinguna. Ég skal með ánægju viðurkenna að ég er ánægð með leiðréttinguna. Leiðréttingin var efnahagsleg aðgerð. Hún var ekki félagsleg aðgerð. Fjöldi einstaklinga af millistétt hefur komið til okkar, hv. þingmanna Framsóknarflokksins, og sagt: „Takk“ og sagt: „Allt í lagi, þó að ég hafi kannski ekki fengið brjálæðislega háar fjárhæðir leiðréttar þá voruð þið tilbúin til að viðurkenna að það voru ekki heimili landsins sem stóðu fyrir efnahagshruninu.“ Og ég er ánægð ef fólki líður betur.

Það hefði örugglega verið hægt að fara í aðra aðgerð sem sneri að því að styrkja stöðu þeirra sem standa höllum fæti félagslega í kerfinu og það var gert. Það var gert með því að vinna að lögum um almennar íbúðir og með því að reyna að efla leigumarkaðinn.