146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:26]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst fróðlegt að heyra hv. þingmann Samfylkingarinnar segja að aðgerðin sem náði mest til millistéttarfólks hafi runnið til fólks sem hafði ekkert með peningana að gera. (Gripið fram í: Sumra.) Að millistéttarfólk, sem tók hvað mestan skell á sig eftir hrunið — að það hafi bara ekki átt að gera neitt í þeirra málum. Þetta er reyndar í takt við það sem hæstv. ríkisstjórn Samfylkingarinnar hélt fram (LE: Nú ertu farin að snúa út úr.) Nei, að ekkert yrði gert meira í húsnæðismálum, ekki verði meira gert í húsnæðismálum fyrir skuldsett heimili — það eru til fréttatilkynningar um það, sem ég bið hv. þingmann að fletta upp ef hann telur mig vera að snúa út úr orðum sínum.

Það er rétt, sem kom fram hjá mér, og ég get alveg endurtekið það hér og nú, að leiðréttingin var ekki félagsleg aðgerð. Leiðréttingin var sanngirnisaðgerð, efnahagsleg aðgerð, til að fólk, millistéttarfólk að mestu leyti, fengi viðurkenningu á því að það voru ekki þau sem báru ábyrgð hér á efnahagshruninu. (Gripið fram í.) Til að koma til móts við ungt fólk á leigumarkaði var farið í umfangsmiklar aðgerðir í leigumálum eftir aðgerðalausan tíma í sjö ár á meðan hæstv. ríkisstjórn Samfylkingarinnar var hér við völd.

Hvað varðar byggingarreglugerð þá vitna ég til þeirra skýrslna og gerða sem hafa verið gerðar. Það er hægt að byggja meira og minna, en horfa samt til þeirrar mikilvægu hönnunar þannig að gamalt fólk og fólk með fötlun hafi greiðan aðgang að húsnæði og geti búið í sínu húsnæði.