146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Málið sem við tölum um hérna varðar einfaldlega þak yfir höfuðið. Það er eitthvað sem er nauðsynlegt á Íslandi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við höfum lent í húsnæðiskrísu, en vonandi í síðasta sinn. Það er mjög áhugavert að skoða fyrri reynslu okkar í þessum málum. Árið 2002 var birt grein sem heitir „Íbúðir fyrir fjöldann“ eftir Eggert Þór Bernharðsson í ritinu Byggt yfir hugsjónir: Breiðholt: frá hugmynd að veruleika, sem Listasafn Reykjavíkur gaf út árið 2002. Mig langar til að lesa smákafla úr þeirri grein, með leyfi forseta, þar sem titillinn er „Júní-samkomulag“ og „Júlí-yfirlýsing“:

„Byggingarframkvæmdir í Breiðholti hófust 6. apríl 1967. Þá voru liðin nærri tvö ár síðan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, „Viðreisnarstjórnin“ svokallaða, gaf út yfirlýsingu um að byggðar skyldu eitt þúsund íbúðir í Reykjavík fyrir láglaunafólk á árunum 1966–1970. Það gerði hún í júlí 1965. „Júlí-yfirlýsingin“ byggði á samkomulagi Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og ríkisstjórnarinnar sem gert var í júní 1964 og var í tengslum við kjarasamninga það ár. „Júní-samkomulagið“ var gert „í anda þeirrar viðleitni að skapa hinum lægst launuðu kjarabætur, sem gætu aukið hlut þeirra gagnvart hærra launuðum atvinnustéttum …“. Einn veigamesti liðurinn í „júní-samkomulaginu“ var hin nýja stefna í húsnæðismálum sem átti að auðvelda efnalitlum fjölskyldum að eignast húsnæði.

Hugmyndum að nýju félagslegu íbúðakerfi var víða vel fagnað enda höfðu samtök launafólks lagt þunga áherslu á húsnæðismál í kjarabaráttu sinni þar sem hundruð fjölskyldna í Reykjavík bjuggu enn í óviðunandi húsnæði, ekki síst almennt verkafólk sem hafði þó lagt sitt af mörkum við fjármögnun húsnæðislánakerfisins en hafði margt hvorki efni né tök á að byggja sjálft. Verkalýðsfélög í borginni töldu tíma til kominn að leysa húsnæðisvanda þessa fólks. Til viðbótar þeim eitt þúsund íbúðum í Breiðholti sem úthluta átti til félagsmanna verkalýðsfélaganna var ákveðið að byggja þar 250 leiguíbúðir fyrir Reykjavíkurborg. Alls var því um að tefla 1.250 íbúðir. Skipulagning og umsjón með verkinu var falin Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar en í henni sátu tveir fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni, tveir frá húsnæðismálastjórn og einn frá Reykjavíkurborg. Hlutur borgaryfirvalda var m.a. að útvega lóðir til framkvæmdanna nefndinni að kostnaðarlausu en húsnæðismálastjórn úthlutaði íbúðunum að fengnum tillögum frá sérstakri nefnd verkalýðsfélaganna.

Í „júlí-yfirlýsingunni“ 1965 sagði að íbúðirnar ættu að vera hagkvæmar og ódýrar, notaðar yrðu fjöldaframleiðsluaðferðir og gerð tilraun til að sannreyna hvort hægt væri að lækka byggingarkostnað með góðri skipulagningu og fullkomnustu tækni sem völ væri á. Íbúðirnar yrðu staðsettar í hverfum þannig að komið yrði við sem mestri hagkvæmni í byggingarframkvæmdum, gerð íbúðanna og frágangur yrði staðlaður og það sjónarmið látið ráða að þær yrðu hagkvæmar og smekklegar en án óþarfa íburðar. Í fyrsta áfanga Framkvæmdanefndarinnar átti að reisa sex fjölbýlishús af sömu tegund. Í hverri blokk voru 52 íbúðir, ýmist tveggja, þriggja eða fjögurra herbergja, og þeim átti að skila fullfrágengnum og tilbúnum til íbúðar. Alls voru því á ferð 312 fjölbýlishúsaíbúðir í fyrsta áfanga. Til viðbótar þeim voru reist 23 einbýlishús úr timbri.“

Greinin er mun lengri, en kjarninn í henni var einmitt að endurnýta, nota sömu teikningar aftur, að skafa af allan óþarfakostnað sem gæti talist óþarfur.

Áætlunin gekk vel á þann hátt að hún leysti íbúðavandann. Hún losaði Reykjavíkurbúa úr bröggunum. Hún leysti íbúðavanda verkafólks, þó að eftir á að hyggja hafi kannski íbúðablöndun í Breiðholtinu ekki verið sem best í kringum þann tíma og eftir á. Það er því ýmislegt í þeirri uppbyggingu sem fór fram í Breiðholtinu sem við getum lært af. En hugmyndin og framkvæmdin á alveg jafn vel við núna. Það eru hlutfallslega, í grófum útreikningi jafn mikil húsnæðisvandamál núna og þá, þó að aðbúnaður íbúa sé ekki eins slæmur og hann var þá þar sem fólk bjó í bröggum og skólp var beint út í skurð o.s.frv. En þörfin fyrir íbúðir til leigu jafnvel og/eða kaupa alveg jafn mikil. Mig langar til að benda fólki á að kíkja á þessa grein sem er á slóðinni: notendur.hi.is/eggthor/breidholt.htm. Ef það kemur vel fram í ræðu, þá má endilega setja tengil þar á.

Eins og ég sagði áðan er þetta mál sem við tölum um gríðarlega mikilvægt. Það er í rauninni verið, eins og hv. flutningsmaður talaði um áðan, að búa til ákveðinn skort. Þetta er bara skortur, og markaður fyrir þá sem hafa efni á því. Fólk sem hefði kannski, og fullt af fólki sem hefði kannski efni á því að safna sér upp í íbúð er í rauninni að elta skottið á sjálfu sér á þann hátt að íbúðaverð hækkar svo mikið að það fólk sem nær að safna sér inn heldur ekki í við þá innborgun sem annars þyrfti að ná. Ef ég gæti safnað mér 100 þús. kr. á mánuði eða eitthvað því um líkt, það myndi gefa mér það að ég næði innborgun eftir fjögur ár eða eitthvað svoleiðis, ég er bara svona að skjóta út í loftið, en af því að íbúðaverð hækkar svo mikið þá teygist sá tími sem ég hef til þess að safna mér fyrir íbúðinni jafn mikið, þannig að ég er bara að spóla í sömu förunum, svona eins og að vetri til. Það kemur til með að gera það að verkum að að lokum hlýtur þessi markaður að mettast þar sem það er orðið það dýrt að enginn, ekki einu sinni þeir ríkustu, hefur efni á að kaupa. Þá hljóta að koma að fjársterk félög hvað varðar leiguíbúðirnar. Leiguverðið er nægilega hátt núna til þess að enginn sem er á eðlilegum launum, jafnvel staðalfráviki yfir meðallaunum, hefur efni á því að safna sér fyrir innborgun á íbúð. Þetta býr til ákveðna fátæktargildru í rauninni þar sem kostnaður við það að leigja íbúð er meiri en afborgun af 80% láni og allur kostnaður sem fylgir viðhaldi á íbúðinni.

Ef ég myndi kaupa íbúð, segjum á fullu láni, og ég myndi telja mér til öll fasteignagjöld og kostnað af íbúðinni, og svo að lokum hver kostnaður minn er af því að borga af láninu og ég leigi íbúðina til þriðja aðila á þeirri upphæð og rúmlega það, þá er sá aðili að eignast íbúðina, hann er að borga íbúðina fyrir mig án þess að ég þurfi að gera neitt nema útvega þennan upprunalega höfuðstól, þessi 20%. Mér finnst það alla vega siðferðilega mjög vafasamt að ég geti látið einhvern annan eignast íbúðina fyrir mig. Ég velti fyrir mér hvort hægt væri að hafa eitthvað, eins og t.d. ákveðið kaupleigufyrirkomulag þannig að ef leiguverð fer upp fyrir ákveðið hlutfall af t.d. fasteignamati eða einhverju markaðsmati þá sé orðin sjálfkrafa kaupleiga, þannig að leigjandinn eignist þá sjálfkrafa hluta í íbúðinni sem hann leigir þegar hann er að borga það hátt íbúðaverð að hann er að eignast íbúðina fyrir eigandann. Þetta hvetur til þess að eigendur í rauninni myndu skulda minna í íbúðunum og geta þannig lækkað leiguverðið af því að þeir væru ekki líka að borga af lánum. Þetta er það flókin umræða í rauninni að gaman væri að hafa miklu meiri tíma til þess að fjalla um hana. Grunnurinn að þessu er að við þurfum þak yfir höfuðið og það þarf að byggja rosalega margar íbúðir. Við verðum að gera það í raun og veru strax.