146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

uppbygging leiguíbúða.

285. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kærar þakkir fyrir þetta og ekki síst fyrir að lesa upp úr þessu skemmtilega riti. Þetta var auðvitað mjög merkilegt verkefni. Spurningin sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um, hann svaraði henni í sjálfu sér síðar í ræðunni, var um þessa blöndu, þessa fjölbreytni. Það sem menn hugsuðu í raun ekki út í var að bæir og borgir eru einmitt lífvænlegri ef þar eru allar tegundir fjölskyldna og alls konar fólk sem býr þar og auðvitað önnur starfsemi, verslun og þjónusta, fyrir utan að það er auðvitað miklu manneskjulegra samfélag. Ég spyr þá bara hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um það.

Svo er hitt að það er alveg rétt að þarna töluðu menn um að nýta einhvers konar fjöldaframleiðslueiningar. Það var ekki gert í svo miklum mæli. Fyrir mig sem arkitekt þá hef ég stundum hugsað út í það að það er ógæfa okkar að byggja ekki úr múrsteini eða öðrum einingum þannig að við getum tamið okkur svona „módúlar“-hugsunarhátt.

Í öllu falli er framleiðni hér á Íslandi í byggingariðnaði 66% af því sem hún er í Noregi. Það segir okkur að jafnvel þótt við ráðumst kannski ekki í það að fara að staðla allar einingar — þótt við mættum kannski aðeins hugsa það betur því að það er alveg hægt að ná mikilli fjölbreytni þótt maður geri það — þá liggur töluverður ávinningur í því að hugsa byggingarferilinn frá því að fyrsta teikning er gerð eða fyrsta deiliskipulagið er gert og þangað til húsið er byggt. Þar getum við náð gríðarlegum árangri sem lækkar byggingarkostnað ef við pössum að framlegðin lendi ekki öll hjá þeim sem halda á verkefninu.